„Verður gríðarlega jöfn deild“

Hrafnhildur Ósk Skúladóttir, til hægri.
Hrafnhildur Ósk Skúladóttir, til hægri. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

ÍBV og Valur gerðu 22:22 jafntefli í 2. umferð Olís-deildar kvenna í kvöld þegar liðin mættust í Vestmannaeyjum. Bæði lið fóru af stað með sigri í fyrstu umferðinni og eru því enn taplaus í deildinni.

Hrafnhildur Ósk Skúladóttir, þjálfari ÍBV, var sátt með stigið úr því sem komið var en lið hennar var tveimur mörkum undir þegar nokkrar mínútur voru eftir. Hún ræddi við mbl.is í kvöld eftir leikinn.

„Ég er svekktust með fyrri hálfleik, við hefðum vel getað verið 7, 8 eða 9 mörkum yfir eftir hann. Við vorum algjörlega með þær þá, vörnin var gjörsamlega frábær og Jenný frábær fyrir aftan. Það gekk frábærlega til að byrja með, sóknin var góð og við komumst strax í einhver fjögur eða fimm mörk. Svo byrjum við að fara illa með færi og dauðafæri. Við förum að gera einhver glórulaus mistök og þetta er bara algjört kæruleysi. Við vorum miklu, miklu betri og áttum að vera búnar að hrista þær algjörlega af okkur í fyrri hálfleik.“

Þrátt fyrir að hafa unnið fyrri hálfleikinn með tveimur mörkum en tapað þeim síðari með tveimur er Hrafnhildur ósáttari með hann.

„Við vorum algjörlega með þær í fyrri hálfleik, þær áttu ekkert svar við varnarleiknum okkar.“ ÍBV kastar þó frá sér frábærri forystu þegar liðið er fjórum mörkum yfir og seinni hálfleikur hálfnaður.

„Þá spila þær frábæra vörn, hún small algjörlega hjá þeim. Við skorum ekki í langan tíma og síðan er rosalega vont að missa Gretu út af. Það var ekkert að hjálpa okkur, þær voru að spila svo flatt að það hefði verið gott að hafa eina stóra þarna fyrir utan.“

ÍBV átti í miklum erfiðleikum með sóknarleikinn eftir að Greta Kavaliuskaite fékk rautt spjald í seinni hálfleik og náðu í raun aldrei að laga þann hluta leiksins á þeim tíma sem var eftir.

„Varnarlega voru hún og Ester búnar að vera stórkostlegar þarna inni á miðjunni, þær voru búnar að verja næstum því jafn mikið og markmaðurinn og við þurftum þá að breyta um vörn. Auðvitað var ömurlegt að missa hana út af, en úr því sem komið var erum við sáttar með þetta stig, verandi tveimur mörkum undir þegar það er ein og hálf eftir.“

Er þetta kannski lýsandi fyrir liðin, eru þau virkilega jöfn?

 „Algjörlega, ég vil meina hvort sem það sé Fram, Stjarnan, Valur eða Haukar eða bara nánast öll liðin í þessari deild þá er svakalega lítill getumunur. Þetta er bara dagsform og höfuðið. Þetta verður gríðarlega jöfn deild og það verður hart barist um þessi fyrstu fjögur sæti, það er ljóst,“ sagði Hrafnhildur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert