Ég er alveg búinn á því

Elías Már Halldórsson leggur línurnar fyrir sitt lið í kvöld.
Elías Már Halldórsson leggur línurnar fyrir sitt lið í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Magnússon

Elías Már Halldórsson, þjálfari Hauka, var eins og gefur að skilja ánægður með 23:20-sigur liðsins á Gróttu á Seltjarnarnesi í 2. umferð Olísdeildar kvenna í handknattleik í dag. Elías segir hins vegar margt mega bæta í leik síns liðs. 

„Það voru punktar sem voru ágætir en við erum enn þá klaufar finnst mér. Við erum að brenna mikið úr dauðafærum og þetta var skrítinn leikur, það var allt út um allt. Þær voru að taka úr umferð og svo hætta að taka úr umferð og við erum að reyna að bregðast við því. Þegar það er stutt komið í mótinu eru ekki búinn að æfa suma hluti."

„Það er framför að vinna núna eftir að hafa tapað síðast og ég er gríðarlega ánægður með það. Ég er fyrst og fremst ánægður með karakterinn í dag, þetta var brekka allan tímann og Grótta er með mjög gott lið. Lovísa Thompson er örugglega besti leikmaðurinn í deildinni og ég er ánægður með að við gáfumst aldrei upp."

„Ég var að hreyfa liðið mikið og það komu allir inn á nema einn. Leikmenn voru flestir að skila sínu og ég er ánægður með það, við þurfum að byggja á liðsheildinni í vetur."

Leikurinn var jafn allan tímann og var það ekki fyrr en í blálokin að Haukar náðu meira en eins marks forskoti og tryggðu sér sigurinn. 

„Ég er alveg búinn á því, ég var mjög stressaður allan leikinn og mér fannst við aldrei ná þessu gripi sem við hefðum þurft að ná. Ég er mjög ánægður með að hafa náð sigrinum," sagði Elías Már að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert