Enginn fær auðveld stig hérna

Ólöf Ásta Arnþórsdóttir skoraði eitt mark fyrir Fjölni í kvöld.
Ólöf Ásta Arnþórsdóttir skoraði eitt mark fyrir Fjölni í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég er ótrúlega stoltur af liðinu, við undirbjuggum okkur gríðarlega vel, við höfðum góða tilfinningu fyrir þessum leik og stelpurnar sýndu frábæra frammistöðu,“ sagði Arnór Ásgeirsson, þjálfari Fjölnis, eftir 17:17 jafntefli gegn Selfossi í 2. umferð Olísdeildar kvenna í handknattleik í kvöld.

Leikurinn var í járnum lengst af en þegar þrjár mínútur voru til leiksloka náði Selfoss tveggja marka forystu og virtist ætla að hafa stigin tvö. Fjölnis náði þó að snúa taflinu við og skoraði Helena Ósk Kristjánsdóttir jöfnunarmark á loka sekúndunum í háspennu leik.

„Við lendum í smá veseni þegar Andrea er tekin út og vorum ekki að leysa það eins og við getum, við vorum samt að fá færin en þurftum að sýna þolinmæði. Allt í allt er frábært að geta komið svona til baka og náð í stig, það er gríðarlega barátta í þessu Selfoss liði og við lögðum upp með að mæta þeim af jafn mikilli ef ekki meiri hörku.“

„Við vorum að klikka á sendingum fram, hraðaupphlaupum og dauðafærum. Í svona jöfnum leik þá skipta þessi færi gríðarlega miklu máli.“

Arnór var þó heilt yfir ánægður með frammistöðuna og fyrsta stigið í vetur.

„Við erum með ungan og efnilega hóp, erum að fá inn einhverja styrkingu og erum alltaf að hugsa um að bæta okkur og taka næsta skref. Þessi frammistaða sýndi að við erum klárar.“

Selfyssingar héldu að þeir hefðu unnið leikinn á lokasekúndunni þegar Perla Ruth Albertsdóttir skoraði í autt Fjölnismarkið frá miðju. Dómararnir tóku sér langan tíma í að íhuga þetta áður en þeir dæmdu miðjuna ólöglega og markið stóð því ekki, en Arnór var þó ekki stressaður á meðan dómararnir ræddu málin.

„Ég hafði góða tilfinningu fyrir þessu. Ég hefði verið mjög vonsvikinn ef við hefðum tapað þessum leik, við náðum góðri leikfléttu hér í lokin og skorum frábært mark. Það hefði verið gríðarlega svekkjandi að tapa þessu.“

Fjölnismenn eru nýliðar í deildinni og var spáð neðsta sætinu í vetur en tímabilið leggst vel í Arnór og hans leikmenn.

„Veturinn leggst vel í okkar. Við ætlum að gefa allt í þetta, halda sæti okkar í deildinni og þessi frammistaða sýndi að við ætlum að mæta liðum af hörku. Nú er skrekkurinn kominn úr liðinu og það kemur enginn hingað og fær auðveld stig, nú er það bara næsti leikur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert