Ekki bara Aron sem heillar Barcelona

Thiagus Santos, leikmaður Brasilíu.
Thiagus Santos, leikmaður Brasilíu. AFP

Spánarmeistarar Barcelona í handknattleik eru greinilega ekki bara að fylgjast með Aroni Pálmarssyni í Ungverjalandi heldur eru með alla anga úti þar í landi í leit að liðsstyrk.

Barcelona hefur nú samið við brasilíska landsliðsmanninn Thiagus dos Santos og mun hann ganga í raðir félagsins næsta sumar. Þetta er fullyrt á vefnum Handball-Planet í dag, en brasilíski landsliðsmaðurinn er samherji Stefáns Rafns Sigurmannssonar hjá Pick Szeged í Ungverjalandi. Hann er 28 ára gamall og spilar í stöðu vinstri skyttu og er auk þess liðtækur varnarmaður. Hann hefur spilað í Evrópu frá árinu 2012 en skorað 182 mörk í 110 landsleikjum fyrir Brasilíu.

Barcelona horfir því mikið til Ungverjalands, en liðið er sagt hafa samið við Aron Pálmarsson um að koma til liðsins næsta sumar. Aron vill hins vegar losna strax og það hefur sem kunnugt er sett hann út í kuldann hjá liði sínu Veszprém.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert