Stóru nöfnin frá virðingu frá dómurunum

Gunnar Gunnarsson, þjálfari Víkings.
Gunnar Gunnarsson, þjálfari Víkings. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þeim var spáð efsta sæti og okkur neðsta og það ætti að vera gríðarlegur munur. Það sást að hluta til í leiknum, ég var ánægður með baráttuna í strákunum og við vorum inni í leiknum," sagði Gunnar Gunnarsson, þjálfari Víkings eftir 33:25-tap gegn ÍBV á heimavelli í Olísdeild karla í handknattleik í kvöld. 

Gunnar var ekki ánægður með störf dómara leiksins. 

„Það er mikil virðing fyrir þessum stóru nöfnum og góðu liðum frá dómurunum. Það hallar aðeins á okkur. Stóru liðin fá vafaatriðin en þau litlu ekki. Það gerði hins vegar ekki gæfumuninn í leiknum. Eyjamenn eru með hörkulið og áttu skilið að vinna leikinn, ég vil óska þeim til hamingju."

Eyjamenn náðu mest átta marka forskoti í fyrri hálfleik en munurinn var aðeins tvö mörk snemma í seinni hálfleik. 

„Þá erum við ekki með tæknifeilana sem voru að búa til þetta forskot hjá þeim. Við vorum með aragrúa af tæknifeilum í leiknum. Við erum með mikið af skotum sem hitta ekki á markið. Markmennirnir voru ekki að verja marga bolta því helmingurinn af skotunum okkar fór framhjá."

„Við erum með 16 tæknifeila og 13 skot framhjá, það eru 29 sóknir sem fara ekki á markið. Það er dýrt," sagði Gunnar að endingu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert