Auðvitað ósattur við 2-3-4 atriði

Halldór Harri Kristjánsson.
Halldór Harri Kristjánsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við vorum með þetta í okkar höndum í fyrri hálfleik en svo var vörnin okkar ekki tilbúin í seinni hálfleik og við fáum mikið af mörkum á okkur þá, þar liggur leikurinn ásamt því að þetta var stöngin út í lokin," sagði Halldór Harri Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar eftir 27:26-tap gegn Val í 4. umferð Olísdeildar kvenna í handknattleik í kvöld. 

Stjarnan var sex mörkum yfir á tímabili í fyrri hálfleik en Valskonur voru mun betri í síðari hálfleik.

„Þetta voru tvö hörkulið, við vissum að þetta yrði erfiður leikur. Þær náðu að klára þetta í lokin á meðan við vorum ekki nógu dugleg."

Ramune Pekarskyte spilaði lítið í dag. Hún er að glíma við meiðsli. 

„Hún lenti í meiðslum í vikunni og við sáum okkur ekki fært til að nota hana en hún gaf sér einhverjar mínútur í þetta og ég er ánægður með hennar innkomu."

Stjarnan hefur aðeins unnið einn leik í fyrstu fjórum umferðunum, eitthvað sem fáir bjuggust við fyrir mót. 

„Ég er ósköp rólegur og hef engar áhyggjur. Við töpuðum á móti Selfossi þar sem við vorum óánægð með okkar spilamennsku en þetta er rétt að byrja. Þetta verða mörg lið að taka stig af hvoru öðru."

Halldór virtist ósáttur við dómara leiksins, en hann vildi ekki gera mikið úr því. 

„Ég þakkaði þeim fyrir leikinn en sem þjálfari þá ertu auðvitað alltaf ósáttur við 2-3-4 atriði sem mér fannst skipta máli. Ég var ekkert að pirra mig," sagði hann að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert