Elvar Örn kveikti í okkur

Elvar Örn Jónsson, Selfossi, fór mikinn á lokakafla leiksins að …
Elvar Örn Jónsson, Selfossi, fór mikinn á lokakafla leiksins að Varmá í kvöld. mbl.is/Golli

„Allt í einu breyttist leikur okkar til betri vegar eftir við höfðum verið hræðilegir í fimmtíu mínútur,“ sagði Teitur Örn Einarsson, annar af tveimur markahæstu leikmönnum Selfoss, eftir ævintýralegan sigur liðsins á Aftureldingu, 29:28, í fimmtu umferð Olís-deildar karla í handknattleik að Varmá í kvöld.

„Elvar Örn dreif okkur áfram á lokakaflanum. Hann skoraði þrjú góð mörk sem kveikti í okkur. Þá lifnaði yfir varnarleiknum og markvörslunni. Þar með snerist leikurinn okkur í hag. Ég hef enga aðra skýringu á þessum umskiptum,“ sagði Teitur Örn sem skoraði sjö mörk eins og fyrrgreindur Elvar Örn Jónsson sem lék stórt hlutverk í Selfoss-liðinu á lokakaflanum.

„Við breyttum akkúrat engu á lokakaflanum frá því sem við vorum að gera fyrr í leiknum. Skyndilega þá fórum við að leika þann handknattleik sem við höfum verið að æfa. Þá small allt saman.

Ég vil fyrst og fremst hrósa Elvari. Hann kom okkur inn á sporið og lagði grunninn að því að við snerum leiknum okkur í hag með þeim afleiðingum að við förum héðan úr Mosfellsbæ með tvö góð stig,“ sagði Teitur Örn Einarsson, leikmaður handknattleiksliðs Selfoss.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert