Farið að lengja eftir fyrstu punktunum

Kári Garðarsson
Kári Garðarsson mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við vorum ekki að hitta á okkar besta dag,“ sagði Kári Garðarsson, þjálfari Gróttu, eftir 28:24 tap gegn Fram í 6. umferð Olísdeildar karla í handknattleik í kvöld en Grótta er áfram án stiga á botni deildarinnar.

„Mér leist ágætlega á þetta framan af en við lendum í því að Arnar Birkir [Hálfdánsson] er frábær í dag, sérstaklega í fyrri hálfleik, við erum í miklum vandræðu með hann og náum svo ekki að klára okkar sóknir nógu vel.“

Grótta fékk níu vítaköst í leiknum sem Maximiliam Jonsson setti öll í netið en Kári hefði viljað fá meira úr opnu spili í sóknarleiknum.

„Vítaköstin fáum við svosem úr einhvers konar árásum og spilamennsku en við getum gert betur í sóknarleiknum, við vorum full staðir og of mikið að drippla boltanum, það gerir þeim auðvelt fyrir í vörninni.“

Gestirnir hótuðu því að koma til baka undir lokin en mistókst nokkrum sinnum að minnka muninn í eitt mark áður en Framarar gengu á lagið og kláruðu einvígið.

„Við vorum að gera atlögu að þessu en hún var ekki nógu góð, Fram er með traust og takir á leiknum í síðari hálfleik og hlutverk Arnars Birkis var gríðarlega stórt í þeirra sóknarleik.“

Hvað hefðuð þið getað gert til að stöðva Arnar Birkir?

„Kannski hefðum við átt að stíga betur út í hann fyrr, það gekk ágætlega þegar við byrjuðum á því en hann er góður skotmaður og með þessi snöggu skot sem voru nokkur drjúg fyrir þá.“

Þrátt fyrir skelfilega byrjun á mótinu er Kári þó bjartsýnn á framhaldið en hann segir stíganda vera í spilamennskunni.

„Ég held að þetta sé alltaf að verða betra og betra. Auðvitað er okkur farið að lengja eftir fyrstu punktunum og maður vonaði að þau kæmu í dag eins og ég vonaði reyndar líka í síðasta leik og þar síðasta. Við þurfum bara að halda áfram að djöflast og mæta í næsta verkefni og selja okkur dýrt þar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert