Þetta er hættuleg þróun að mínu mati

Kári Garðarsson, þjálfari Gróttu.
Kári Garðarsson, þjálfari Gróttu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er vissulega orðið afar þreytt að ná ekki að innbyrða sigur eftir jafna leiki. Ég tek það hins vegar ekki af drengjunum að þeir lögðu sig alla fram í verkefnið og við hefðum átt skilið að fá eitthvað út úr þessum leik,“ sagði Kári Garðarsson, þjálfari Gróttu, eftir 29:25-tap liðsins gegn Aftureldingu í sjöundu umferð Olísdeildar karla í handbolta í kvöld. 

Hannesi Grimm var vikið af velli með rauðu spjaldi um miðbik fyrri hálfleiks fyrir að stjaka við Birki Benediktssyni. Hannesi var síðan sýnt bláa spjaldið og var Kári nokkuð ósattur við þá niðurstöðu. 

„Mér finnst þróunin svolítið vera þannig að það fer eftir því hversu mikið leikmaður meiðist hvaða refsingu leikmenn fá. Það þykir mér hættuleg þróun og býður upp á að leikmenn geri meira úr brotum en ella. Ég er alls ekki að segja að það hafi átt við í þessu tilfelli, en ef þetta er rétt metið hjá mér þá finnst mér það ekki gott. Mér fannst þetta hæpinn dómur alla vega, ég segi ekki meir,“ sagði Kári um þá ákvörðun dómara leiksins að vísa Hannesi af velli með beinu rauðu spjaldi.

Þrátt fyrir að Grótta hafi ekki náð í stig í fyrstu sjö leikjum deildarinnar á yfirstandandi leiktíð og liðið sitji eitt og yfirgefið á botni deildarinnar eins og sakir standa þá er Kári ekki farinn að örvænta. 

„Við höfum verið að spila vel í vetur og nú erum við að styrkjast með tilkomu nýrra leikmanna. Finnur Ingi [Stefánsson] er að komast betur og betur inn í hlutina eftir að hafa glímt við meiðsli. Þá hafa Daði Laxdal [Gautason], Nökkvi Dan [Elliðason] og Örn [Östenberg] bæst við liðið á síðustu dögum og þeir styrkja leikmannahópinn verulega,“ sagði Kári brattur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert