Aron heppinn að sleppa við langt bann

Aron Pálmarsson
Aron Pálmarsson Ljósmynd/Heimasíða Vezprém

Aron Pálmarsson, einn besti handknattleiksmaður heims, gekk loks í raðir spænska stórveldisins Barcelona frá Veszprém í Ungverjalandi eftir langvarandi samningaviðræður félaganna tveggja. 

Þrátt fyrir að vera samningsbundinn Veszprém, neitaði Aron að mæta á æfingar hjá liðinu. Þess í stað fór hann heim til Íslands og beið eftir tækifærinu til að semja við Barcelona. Í tilkynningu á heimasíðu Veszprém er farið yfir málið og tekið fram að Aron hefði getað fengið tveggja ára bann fyrir brot á samningi sínum. 

Þar er augljóst að forráðamenn félagsins eru alls ekki sáttir við hegðun Arons. Félagið neitaði að losa hann frá samningi sínum nema hann myndi biðjast afsökunar og viðurkenna að hann hefði gert stór mistök. Félagið greinir einnig frá því að það hafi beðið ungverska handboltasambandið um að fresta því að taka mál Arons fyrir til að skemma ekki feril hans, þrátt fyrir að hann hefði alvarlega móðgað stuðningsmennina og aðra leikmenn Veszprém með framkomu sinni. 

Verðmiðinn á Aroni er mun hærri en komið hefur fram í fjölmiðlum samkvæmt Veszprém. Félagið ætlaði að fá sem mestan pening fyrir leikmanninn eftir allt umstangið sem þessu fylgdi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert