„Á endanum þá tökum við þær“

Selfoss mátti þola tap í kvöld.
Selfoss mátti þola tap í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég er hrikalega svekktur. Við spiluðum hörkuleik gegn besta liði landsins í dag ef miðað er við stigatöfluna og við hefðum vel getað unnið þennan leik,“ sagði Örn Þrastarson, þjálfari kvennaliðs Selfoss eftir 22:27 tap á heimavelli í Olísdeildinni í handbolta í kvöld.

Selfyssingar spiluðu frábæra vörn stærstan hluta leiksins en náðu ekki að svara áhlaupi Vals um miðjan seinni hálfleikinn. Örn tók þann skell á sjálfan sig.

„Við vorum klaufar og gerðum mistök á lykilaugnablikum sem fóru illa með okkur. Við í teyminu erum þar á meðal, við förum ekki nógu fljótt í ákveðnar breytingar sem voru góðar, á vörn og markvörðum, það var því miður of seint. Þetta eru bara mistök sem ég tek á mig og verð að lifa með því. En ég er hrikalega stoltur af stelpunum fyrir frábæra baráttu í dag. Þetta var stöngin út í kvöld.“

Eins og fyrr segir var varnarleikurinn lykillinn að góðum leik Selfyssinga og heimakonur voru oft fljótar að refsa ef Valur gerði mistök.

„Þessar stelpur eru gjörsamlega stórkostlegar í vörn. Það er hrikalega gaman að sjá þær spila vörn og svo duttu með okkur hraðaupphlaup þannig að við komumst yfir í lok fyrri hálfleiks. Við leiddum þangað til um miðjan seinni hálfleikinn og misstum þær aðeins frá okkur í lokin,“ sagði Örn og var sammála því að hik hafi komið á sitt lið.

„Við ræddum það eftir leik. Við fórum aðeins að hika og töpuðum allt of mörgum boltum á þeim kafla. Svo þegar pressan var farin í lokin þá fórum við að negla á þetta aftur. Við vorum með fína skotnýtingu í dag, miklu betri en áður, þannig að ég hefði bara viljað sjá þær halda áfram að dúndra á markið þarna um miðbik seinni hálfleiksins,“ bætti Selfossþjálfarinn við.

„Þetta var einn okkar besti leikur í vetur. Þetta var jafnt en féll með Val í dag. Við stefnum á að bæta okkur og okkur finnst vera stígandi í þessu. Á endanum þá tökum við þær.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert