Elvar Örn og Bjarki Már úr leik

Elvar Örn Jónsson, leikmaður Selfoss (hvítklæddur) hefur orðið að draga …
Elvar Örn Jónsson, leikmaður Selfoss (hvítklæddur) hefur orðið að draga sig út úr landsliðinu í handbolta vegna meiðsla í baki. mbl.is/Árni Sæberg

Handknattleiksmaðurinn efnilegi frá Selfossi, Elvar Örn Jónsson, og varnarjaxlinn úr Stjörnunni, Bjarki Már Gunnarsson, hafa orðið að draga sig út úr 20 manna landsliðshópi Geirs Sveinssonar landsliðsþjálfara sem býr sig undir tvo vináttuleiki við Svía sem fram fara í Laugardalshöllinni á fimmtudagskvöldið og á laugardag. 

Elvar Örn, sem leikið hefur afar vel með Selfossi í Olís-deildinni, er meiddur á baki. Geir landsliðsþjálfari sagði á blaðamannafundi að grunur léki á að meiðslin væru alvarleg og svo gæti farið að Elvar Örn yrði frá keppni í mánuð til sex vikur af þessum sökum. Verði sú raunin er um talsvert áfall að ræða fyrir Selfoss-liðið sem situr í fjórða sæti Olís-deildarinnar. 

Bjarki Már glímir einnig við meiðsli og eftir æfingu í gær þótti ljóst að hann gæti ekki tekið þátt í leikjunum við Svía af fullum styrk, að sögn Geirs. 

Ásgeir Örn Hallgrímsson er þriðji maðurinn á sjúkalista landsliðsins um þessar mundir. Geir sagðist gera sér vonir um að Ásgeir gæti tekið þátt í öðrum leiknum við Svía. Ásgeir hefur átt í meiðslum á nára og hefur af þeim sökum lítið leikið með Nimes í frönsku 1. deildinni á þessari leiktíð. 

Enn eru 17 leikmenn sem æfa af fullum krafti af þeim 20 sem Geir valdi til leikjanna tveggja við Svía. Fyrri viðureignin fer fram í Laugardalshöll á fimmtudagskvöld og hefst klukkan 19.30. Síðari leikurinn verður einnig í Laugardalshöll og hefst klukkan 14 á laugardaginn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert