Vorum ekki á fullum ljósum

Stefán Arnarson,
Stefán Arnarson, mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við vorum greinilega ekki á fullum ljósum hérna í kvöld, það er ljóst,“ sagði svekktur Stefán Arnarson, þjálfari Fram, eftir 28:22 tap gegn Haukum í 6. umferð Olísdeildar kvenna í handknattleik í kvöld.

„Mér fannst munurinn á þessum liðum of mikill, Haukar mættu sem lið og við sem einstaklingar. Þú vinnur aldrei sem einstaklingur í hópíþrótt.“

Hvað fór einna helst úrskeiðis í kvöld?

„Við spiluðum enga vörn og sóknarleikurinn var lélegur, við vorum bara léleg í leiknum. Ég ætla samt ekki að taka neitt af Haukunum sem spiluðu mjög vel, voru miklu grimmari, vildu þetta meira og rústuðu okkur.“

Það þurfti að fresta leiknum um hálftíma vegna rafmagnsleysis í Framhúsinu en Stefán vildi ekki nota það sem afsökun fyrir frammistöðu liðsins.

„Þess vegna sagði ég að við værum ekki á fullum ljósum, en það hafði sömu áhrif á bæði lið og við getum ekki afsakað okkur með því.“

„Ef þú spilar ekki vel þá áttu þetta bara skilið og við áttum svo sannarlega skilið að tapa hérna í kvöld. Ef við spilum svona áfram þá eigum við ekki eftir að vinna leik, það er ljóst.“

Getur þetta Fram lið varið Íslandsmeistaratitilinn?

„Nei, við erum ekki með lið í það í dag, það hljóta allir að sjá það. Markmiðið er bara það sama og það er næsti leikur gegn Val,“ sagði Stefán að endingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert