„Það var vatnsgusa“

Alfreð Finnsson.
Alfreð Finnsson. Ljósmynd/Grótta

Alfreð Örn Finnsson, þjálfari Gróttu, var sáttur með margt í leik síns liðs í kvöld, þrátt fyrir 23:19-tap gegn Haukum í Hafnarfirði. Grótta var marki yfir í hálfleik en Haukar reyndust sterkari aðilinn í seinni hálfleik. 

„Þetta var góður leikur af okkar hálfu, Haukarnir stigu upp á réttum tíma en við vorum í þessu í 50 mínútur en missum þær fram úr okkur í lokin. Þetta var flottur leikur þangað til. Við áttum að vera þremur mörkum yfir í hálfleik og það var margt gott í okkar leik.“

Haukar skoruðu síðustu tvö mörk fyrri hálfleiks, eftir klaufaleg mistök Gróttukvenna. 

„Það var svekkjandi eftir að hafa spilað mjög góðan fyrri hálfleik og halda þeim í átta mörkum og líta vel út, það var vatnsgusa. Þær komast yfir í seinni hálfleik en við náum að jafna aftur og virðumst vera í góðum gír en það var herslumunur á lokakaflanum þegar Maria og Elín í markinu stíga upp.“

Lovísa Tompson átti stórleik í kvöld og skoraði 11 mörk, þrátt fyrir að vera tekin úr umferð stóran hluta leiks. 

„Það er langt síðan við höfum spilað með hana, en við losuðum vel um hana í fyrri hálfleik og það gekk ágætlega. Sóknarleikurinn var að ganga ágætlega yfir höfuð.“

Selma Jóhannsdóttir, aðalmarkmaður Gróttu, var ekki með í kvöld. Soffía Steingrímsdóttir kom í hennar stað og stóð sig mjög vel. 

„Soffía stóð sig frábærlega, ég fann það í aðdraganda þessa leiks að hún yrði góð. Það er vont að missa Selmu en Soffía var frábær. Það er gaman fyrir Nesið að eiga svona marga markmenn, Elín í marki Hauka er náttúrulega Gróttukona.“

Alfreð segist styttast í fyrsta sigurinn á leiktíðinni, en Grótta hefur gert tvö jafntefli og tapað rest. 

„Það styttist alltaf í hann, við ætluðum okkur að ná honum í dag og það var margt sem benti til þess að það myndi takast. Ég er svekktur núna en við höldum áfram,“ sagði Alfreð að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert