„Ég er fáránlega glaður“

Gísli Þorgeir Kristjánsson.
Gísli Þorgeir Kristjánsson. Ljósmynd/Kiel

„Ég er bara fáránlega glaður með þennan samning og þetta verður mikið ævintýri fyrir mig,“ sagði FH-ingurinn Gísli Þorgeir Kristjánsson í samtali við mbl.is en eins og fram kom á mbl.is í morgun er hann búinn að semja til þriggja ára við þýska stórliðið Kiel og fer til liðsins næsta sumar.

„Þegar ég heimsótti Kiel árið 2012 þá gerði ég myndaramma með öllum þessum köppum sem voru að spila með Kiel og þar voru menn eins Aron Pálmarsson, Guðjón Valur, Filip Jicha og fleiri. Ég fór á leik með liðinu og ég hengdi þessar myndir upp á vegg hjá mér í herberginu. Núna er ég búinn að semja við Kiel og þetta er bara eins og draumur,“ sagði Gísli Þorgeir, sem er 18 ára gamall og sló rækilega í gegn með FH-liðinu á síðustu leiktíð.

Þjálfari Kiel er Alfreð Gíslason sem hefur gert frábæra hluti með það frá því hann tók við þjálfun liðsins árið 2008 en Alfreð hefur ákveðið að hætta eftir næsta tímabil.

Gísli Þorgeir Kristjánsson
Gísli Þorgeir Kristjánsson mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það verður frábært að fá að vera undir stjórn Alfreð þótt það verði ekki nema þetta eina ár. Ég ber gríðarlega virðingu fyrir honum og það verður gott að fá ráð hjá honum. Hann er að mínu og margra aðra mati besti þjálfari í heimi,“ sagði Gísli Þorgeir.

Þarf að þyngja mig um nokkur kíló

„Ég hef líkt Kiel við Manchester United í fótboltanum. Það eru 11 þúsund manns á hverjum einasta heimaleik og aðstaðan hjá liðinu er frábær. Að ég sé að fara í þetta lið finnst mér óraunverulegt. Ég tel mig vera 100% tilbúinn í að fara út í atvinnumennskuna en ég mun nota sumarið mjög vel. Ég veit að ég þarf að styrkja mig líkamlega. Ég þarf að þyngja mig um okkur kíló. Það hefur gengið vel og ég sé mikinn mun á mér líkamlega miðað við í fyrra. Ég veit að atvinnumennskan er ekki alltaf dans á rósum og ég þarf að vinna líka í andlega þættinum hjá mér. Ég geri mér alveg grein fyrir því að ég á eftir að lenda í einhverju mótlæti,“ sagði Gísli Þorgeir, sem spilar stórt hlutverk með FH-liðinu sem trónir á toppi Olís-deildarinnar.

Gísli Þorgeir lék sína fyrstu A-landsleiki gegn Svíum í síðasta mánuði og hann er í 28 manna landsliðshópnum sem Geir Sveinsson landsliðsþjálfari hefur valið fyrir Evrópumótið í Króatíu í næsta mánuði.

„Ég ætla að gera allt sem ég get til að komast í lokahópinn en nú er ég bara einbeittur á næsta leik með FH sem er á móti Aftureldingu. Nú er þetta orðið klárt með Kiel svo ég get blokkað það í burtu og einbeitt mér alfarið að FH og gera mitt besta með liðinu,“ sagði Gísli við mbl.is en hann var þá nýbúinn í prófi í stjörnufræði.

Hann útskrifast sem stúdent frá Verslunarskólanum næsta vor og þá tekur við nýr kafli hjá þessum efnilega handboltamanni, sem verður þriðji Íslendingurinn til að spila með Kiel en Aron Pálmarsson og Guðjón Valur Sigurðsson gerðu báðir garðinn frægan með liðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert