Förum að titra í smástund

Örn Þrastarson og Rúnar Hjálmarsson fylgjst vel með í kvöld.
Örn Þrastarson og Rúnar Hjálmarsson fylgjst vel með í kvöld. mbl.is/Hari

Örn Þrastarson, þjálfari Selfoss, var svekktur með úrslitin en ánægður með spilamennskuna er lið hans tapaði 28:20 gegn Fram í 10. umferð Olísdeildar kvenna í handknattleik. Selfyssingar voru öflugir framan af og voru margir yfir í hálfleik en Framarar hrukku í gang eftir hlé og hreinlega keyrðu yfir gestina. Örn var sammála því að leikurinn hafi tapast á fyrstu mínútum síðari hálfleiks en Framarar skoruðu fyrstu fimm mörk hans og komust í fjögurra marka forystu.

„Já ég hugsa það, við förum að titra í smástund og þær skora einhver fimm mörk í röð úr hraðaupphlaupum. Restina af tímanum var leikurinn í jafnvægi og við jafnvel með frumkvæðið, sérstaklega í fyrri hálfleik, við vorum frábærar þá. Heilt yfir er ég mjög ánægður með þennan leik.“

Örn telur að kollegi sinn hjá Fram, Stefán Arnarson, hafi hreinlega kveikt í sínu liði í hálfleik

„Ég hugsa að Stebbi hafi bara messað yfir þeim í hálfleik og þær mættu grimmar. Þær eru öflugri en við í dag og náðu að hlaupa á okkur í smá stund. Við tökum svo leikhlé og náum að laga það og minnkuðum muninn aftur niður í þrjú og ég var ánægður með það.“

Elísabet Gunnarsdóttir reyndist Selfyssingum erfið viðureignar en hún skoraði átta mörk af línunni og viðurkenndi Örn að leikmenn sínir réðu einfaldlega ekki við hana.

„Elísabet var frábær í dag og við ræddum í hálfleik að leyfa henni ekki að rykkja svona á okkur en það gekk ekki alveg, við náðum ekki að loka á hana.“

„Vörnin er búin að vera í vandræðum í síðustu leikjum og ég hef verið óánægður með það. Við náum að laga það aðeins í dag sem er mjög gott en við fengum skell í síðustu umferð, ÍBV virðist henta okkur illa en ég er ekki óánægður í kvöld, það er stígandi í liðinu og ég er nokkuð sáttur."

„Síðasti leikur fyrir jólafrí er á sunnudaginn og þá verður fyrsti tvíhöfðinn á Selfossi í ég veit ekki hvað langan tíma. Ég vona að við fáum fullt af fólki til að styðja okkur svo við getum keyrt almennilega inn í þetta jólafrí," sagði hann að endingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert