Þurfum að éta til að komast ofar í fæðukeðjuna

Gunnar Malmquist Þórsson.
Gunnar Malmquist Þórsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gunnar Malmquist Þórsson, leikmaður Aftureldingar, var að vonum eftir sigur á Stjörnunni 30:27 í Olís-deild karla í handknattleik í kvöld. Afturelding fer því með tvö stig í fríið sem nú verður gert á deildinni þar til í lok janúar.

„Maður er rosalega ánægður með það og við stóðum okkur bara nokkuð vel. Það seig svolítið á okkur í seinni hálfleik og við hefðum getað klárað þetta meira sannfærandi. Mér finnst tölurnar ekki sýna hvernig leikurinn var, mér fannst við vera með þetta í höndunum allan tímann og þegar við náðum að stilla upp í vörnina þá áttu þeir ekki séns,“ sagði Gunnar við mbl.is.

Afturelding var með forskot nánast allan leikinn og þrátt fyrir að Stjarnan hafi reynt nokkur áhlaup þá héldu Mosfellingar haus.

„Við erum allavega búnir að læra það að halda haus eftir að hafa misst þetta svolítið niður í síðustu leikjum. Þetta var fínt í dag og varnarleikurinn hélt svona 80% af leiknum,“ sagði Gunnar, en það er ljóst að Mosfellingar ætla að nota fríið til að undirbúa sig sem best til þess að klifra enn frekar upp töfluna á nýju ári.

„Við erum að vinna okkur upp í fæðukeðjunni. Við erum núna í sjötta sæti eða eitthvað og þurfum bara að éta til að komast hærra. Við þurfum að æfa okkur í því í janúarmánuði. Það verður engin miskunn eftir janúar,“ sagði Gunnar við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert