„Vindáttin skagfirskur söngblær“

Nýr völlur og kynbótabraut á Hólum
Nýr völlur og kynbótabraut á Hólum Ljósmynd/Áskell Heiðar

Búist er við um átta til tíu þúsund manns til að horfa á bestu hross landsins sem verða um 700 til 800 talsins á Landsmóti hestamanna á Hólum í Hjaltadal 27. júní til 3. júlí. Mikil uppbygging hefur átt sér stað á Hólum undanfarið og munar mestu um nýjan kynbótavöll. Öll úrslit verða á laugardagskvöldi sem er nýmæli en fjölbreyttir hestatengdir viðburðir verða á sunnudeginum.

Það sem stendur upp úr er þessi mikla uppbygging á svæðinu sem stendur eftir fyrir Hólaskóla til að nýta áfram,“ segir Lárus Ástmar Hannesson, formaður Landsambands hestamannafélaga, um mótssvæðið á Hólum í Hjaltadal þar sem Landsmót hestamanna fer fram dagana 27. júní til 3. júlí, en Háskólinn á Hólum er miðstöð fyrir kennslu og rannsóknir í hrossarækt og hestamennsku.

Á svæðinu hefur m.a. verið byggður nýr kynbótavöllur og áhorfendasvæði í kringum kynbótavöllinn. Auk þess hafa tvö 30 fermetra dómhús verið reist. Nýr vegur hefur verið lagður fyrir tjaldsvæði en þar er prýðileg aðstaða fyrir fólk sem gistir í tjöldum, fellihýsi og hjólhýsi.

Dómhúsin tvö sem reist voru eru samstarfsverkefni margra fyrirtækja sem munu gefa Hólaskóla þau. Annað er við kynbótavöllinn og hitt við aðalvöllinn og munu þau nýtast sem kennslustofur fyrir skólann að Landsmóti loknu.

„Ég held að margir sem hafa ekki komið lengi heim að Hólum átti sig á því hvað mikið var til staðar áður en farið var í þessa vegferð. Hitt má aldrei gleymast hvað þessi skóli í hestafræðum hefur gert rosalega mikið fyrir þessa starfsgrein. Að halda Landsmót á þessum sögufræga stað mun efla skólann til muna,“ segir Lárus.

Hann bendir á að svæðið á Hólum hafi komið vel út í vor þegar úrtökur fyrir Landsmót og kynbótasýningar fóru fram á svæðinu. „Á kynbótasýningunni voru gefnar þrjár einkunnir upp á 9,5 fyrir skeið sem sýnir að brautin virkar. Hann segir svæðið einstaklega skemmtilega upp byggt, stutt er á milli sýningarsvæða, matartjalda og hestatorgsins þar sem fólk getur komið saman. Lárus hlakkar að sjálfsögðu til Landsmóts eins og allir hestamenn landsins gera á þessum tíma. „Hestakosturinn verður gríðarlega magnaður, bæði í gæðingakeppni í öllum greinum svo ekki sé minnst á kynbótahrossin,“ segir Lárus sem segir ekki síður skemmtilegt á Landsmóti að hitta allt fólkið. „Ég hef sagt það lengi að vindáttin verður skagfirskur söngblær,“ segir Lárus spurður út í langtímaveðurspá fyrir Landsmótsvikuna enda sjálfur söngmaður mikill.

Umbylta aðstöðunni

„Það er algjörlega búið að umbylta allri útiaðstöðu á svæðinu. Svo er þessi frábæra inniaðstaða líka, stærsta hesthús landsins og þessar þrjár reiðhallir. Þetta eru frábærar aðstæður til að halda Landsmót,“ segir Áskell Heiðar Ásgeirsson framkvæmdastjóri Landsmóts.

Á Hólum er töluvert af byggingum. Stærsta byggingin á svæðinu nefnist Brúnastaðir en í húsinu eru 189 eins hests stíur. Í suðurenda Brúnastaða er 800 fermetra reiðhöll, Brúnastaðahöllin. Húsið var vígt árið 2007 og er rekið af sérstöku eignarhaldsfélagi, Hesthólum. Í „Gamla hesthúsinu“ er pláss fyrir 20-30 hross. Áföst því hesthúsi er Skólahöllin, önnur 800 fermetra reiðhöll, sú fyrsta sem reist var á Hólum. Í tengibyggingu eru m.a. járningaaðstaða og lítil kennslustofa. Þriðja reiðhöllin er Þráarhöllin en hún er 1.545 fermetrar með áhorfendastúku.

Aðstaða fyrir mótsgesti verður í tveimur þessara reiðhalla. Í annarri verður veitingasala og í hinni verður svokallað Horses of Iceland café þar sem ýmsir aðilar sem tengjast hestamennskunni kynna sína starfsemi. Þar verður einnig kaffishús og krá en þar skapast alla jafna góð stemning á mótinu. Í báðum þessum höllum verður sýnt streymi af mótinu og frá EM í fótbolta.

„Við leggjum áherslu á að þeir sem mæta fari heim með ánægjulega upplifun,“ segir Áskell Heiðar. Hann segist finna mikinn meðbyr með mótinu. Það sýna m.a. tölur úr forsölunni en ríflega fjögur þúsund miðar hafa verið seldir en það hefur aldrei gerst áður.

Öryggismál mikilvæg

Eitt af stóru verkefnunum við skipulagningu á jafn stórum viðburði og þessum eru umferðar- og öryggismál. Tryggja þarf gott flæði í umferðinni. Til að það sé unnt verður henni beint í tvær áttir í dalnum; það er inn og út. Umferðin er með hefbundnum hætti heim að Hólum í gegnum Hólastað og inn á mótssvæðið. Þegar komið er inn á mótssvæðið er einstefna í gegnum svæðið.

Ekki er hægt að komast af svæðinu nema að fara örlítið innar í dalinn og niður dalinn hinumegin.

Einstefnuhringur verður á þessum stað í dalnum en íbúar og gestir Hólastaðar keyra sína venjulegu leið fram og til baka. „Okkur finnst þetta einfaldasta kerfið til að tryggja öryggi okkar gesta. Við leggjum mikið upp úr því að það sé í lagi og erum í góðu samstarfi við lögreglu og björgunarsveitir,“ segir Áskell Heiðar.

Til að jafna álagið í mótslok lýkur keppni á laugardagskvöld og væntanlega munu einhverjir þegar halda heim á leið.

„Við lögðum upp með að þétta kvölddagskrána svo hesturinn væri í fyrsta, öðru og þriðja sæti. Við erum ekki með langar kvöldvökur með skemmtidagskrá eins og oft hefur verið,“ segir Áskell Heiðar. Vilji fólk bíða mestu umferðina af sér verður fræðandi hestadagskrá á Hólum allan sunnudaginn og er slíkt nýmæli á Landsmóti en A-úrslitin í gæðingakeppni hafa yfirleitt verið á dagskrá á sunnudag.

Allir tilbúnir að leggja hönd á plóg við undirbúninginn

„Það þarf að huga að mjög mörgu við skipulagningu á svona mótum, að hrossunum sem koma fram í sýningum og keppnum. Við erum t.d. með beitarhólf sem fólk getur leigt fyrir hrossin og aðstöðu fyrir þau í hesthúsi á sýningardag. Aðstaða fyrir gesti þarf líka að vera í lagi. Þetta þarf allt að ganga upp og svo þarf að skipuleggja mótið sjálft. Þetta myndi ekki ganga öðruvísi nema af því að margir eru tilbúnir að leggja hönd á plóg,“ segir Eyþór Jón Gunnarsson, mótsstjóri Landsmóts.

Hann segir undirbúninginn ganga vel og búið sé að manna allar stöður, eins og dómara og starfsmenn. Fjölmörg hestamannafélög taka að sér ákveðna þætti á mótinu, t.d. tekur Járningamannafélag Íslands að sér fótaskoðun.

Eyþór Jón segist búa vel að reynslu síðustu móta en hann hefur sinnt ýmsum störfum á síðustu fjórum Landsmótum við hlið Sigurðar Ævarssonar sem hefur verið mótsstjóri síðustu Landsmót.

„Ég er sannfærður um að veðrið eigi eftir að leika við okkur þegar við horfum á bestu hross landsins,“ segir Eyþór að lokum.

Ingimar Ingimarsson og Lárus Ástmar Hannesson semja um hesthúsapláss fyrir …
Ingimar Ingimarsson og Lárus Ástmar Hannesson semja um hesthúsapláss fyrir Landsmótið á Hólum 2016
Áskell Heiðar Ásgeirsson er framkvæmdastjóri Landsmóts.
Áskell Heiðar Ásgeirsson er framkvæmdastjóri Landsmóts. Morgunblaðið/Sigurður Bogi Sævarsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert