Spakir hestamenn eftir leikinn

Pétur Björnsson og Kjartan Jón Bjarnason lögreglumenn sinna löggæslu á …
Pétur Björnsson og Kjartan Jón Bjarnason lögreglumenn sinna löggæslu á mótinu. Morgunblaðið/Þórunn

„Nei. Okkur skildist að allir hafi verið svo þreyttir eftir leikinn að þeir hafi farið beint að sofa,“ segir Pétur Björnsson lögreglumaður, spurður hvort lögreglan hafi sinnt eftirlitsstörfum á Landsmótinu í gærkvöldi eftir sigur íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu á Englendingum. Sýnt var frá leiknum í tveimur reiðhöllum á stórum skjám á mótssvæðinu og var stemmningin vægast sagt svakalega góð eins og alls staðar á landinu.

Löggæsla á Landsmótum er mikilvægur þáttur á jafnfjölmennu mannamóti og Landsmótið en búist er við að um tíu þúsund manns muni leggja leið sína í Hjaltadalinn. Pétur og Kjartan Jón Bjarnason lögreglumenn sinna löggæslu á mótinu ásamt fleirum. „Við erum að koma okkur upp aðstöðu, lögreglustöð eins og er í öðrum þéttbýliskjörnum. Við erum að sníða af agnúa eins og innakstur á svæðið svo þetta gangi allt smurt þegar allir eru komnir á svæðið,“ segir Pétur. Hann sinnti einnig löggæslu á síðasta Landsmóti sem haldið var í Skagafirðinum, nánar tiltekið á Vindheimamelum árið 2011. Honum líst vel á mótið, sérstaklega svæðið allt sem hann segir vera til fyrirmyndar. „Það eru allir svo ánægðir með svæðið að þetta verður bara gleði.“

Kjartan Jón tekur í sama streng en þetta er fyrsta sumarið hans í lögreglunni og líkar honum vel. „Þetta er víðfeðmara en ég hélt. Það er miklu meira sem þarf að hugsa út í og taka á en ég hafði gert mér grein fyrir,“ segir Kjartan Jón, spurður hvort það komi honum eitthvað á óvart í starfi lögreglumannsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert