Skýr í uppáhaldi frá 4 vetra aldri

Jakob Svavar Sigurðsson og Skýr frá Skálakoti
Jakob Svavar Sigurðsson og Skýr frá Skálakoti

„Þetta er algjör snillingur í alla staði, heilsteyptur og einstakur karakter. Það er eiginlega alveg sama hvað maður biður hann um það er aldrei neitt mál. Hann hefur verið í uppáhaldi hjá mér frá því hann var fjögurra vetra gamall en hann hefur verið hjá mér frá þeim aldri,“ segir Jakob Svavar Sigurðsson um stóðhestinn Skýr frá Skálakoti sem er með hæstu einkunn 8,98 í A-flokki inn á Landsmót. Skýr er undan Sólon frá Skáney og Vök frá Skálakoti.

Jakob segir að Skýr búi yfir mikilli mýkt og sé með góðar gangtegundir. Hann á sjálfur hlut í hestinum sem hann keypti þegar hann tamdi Skýr á sínum tíma. Hann hefur notað hann töluvert í eigin ræktun og líst vel á afkvæmin. Í vor komu fjögur 4. vetra hross í dóm undan Skýr og fóru þau öll í fyrstu verðlaun. Afkvæmin eru þau fyrstu undan honum en stóðhesturinn er einungis níu vetra gamall. Sem dæmi má nefna tvær fjögurra vetra merar í fyrstu verðlaunum inn á móti. Önnur þeirra er Spá frá Steinsholti í eigu og úr ræktun Jakobs en Spá er klárhryssa sem hlaut fjórar níur, það var fyrir tölt, brokk, vilja og geðslag og fegurð í reið.

Með 20 hross á Landsmóti

Það er nóg að gera hjá Jakobi þessa daga fyrir Landsmót en hann mætir með 20 hross á Landsmót, af þeim eru 13 kynbótahross, fimm taka þátt í gæðingakeppni og tvær hryssur í tölti.

Landsmót á Hólum leggst vel í hann. „Mér finnst eins og það sé hugsað meira um knapa á þessu móti en verið hefur. Mér hefur stundum fundist eins og þeir gleymist á mótunum. Þessi mót snúast fyrst og fremst um hestana. Auðvitað verður umgjörðin að vera líka góð fyrir áhorfendur því mótin eru heldur ekkert án þeirra. Þetta þarf allt að spila vel saman,“ segir Jakob.

Eftir Landsmót flytur Jakob frá Steinsholti á Vesturlandi þar sem hann býr nú að Fákshólum í Ásahrepp á Suðurlandi ásamt kærustu sinni, hinni norsku Hanne Smidesang. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert