Plataður í kaffisölu

Stefán Ólafsson selur kaffi og kleinur á Landsmótinu.
Stefán Ólafsson selur kaffi og kleinur á Landsmótinu. mbl.is/Þórunn

„Meðeigandi minn plataði mig í þetta en hann fékk þessa brjáluðu hugmynd að selja veitingar á landsmótinu. Við erum annars í allt öðrum bransa, vinnum við að fóðra rör,“ segir Stefán Ólafsson, sem er með lítinn kaffivagn rétt við gæðingakeppnisvöllinn á Landsmótinu. Þar er hægt að fá kaffi og ýmislegt góðgæti með því. Stefán kann vel við sig í þessu nýja hlutverki og segir söluna ganga prýðilega að frátöldum gærdeginum þegar rigndi og var heldur kalt í lofti. „Vonandi heldur þetta áfram að ganga svona vel það sem eftir er af mótinu,“ segir Stefán.

Honum líst vel á mótið og segir aðstöðuna á Hólum hafa komið sér skemmtilega á óvart. „Ég held ég hafi aldrei séð jafn marga á landsmóti á mánudegi og var núna á Hólum,“ segir hann en Stefán hefur farið á landsmót síðustu 22 ár og segir það alltaf jafn skemmtilegt. Hann hefur stundað hestamennsku um árabil ásamt fjölskyldu sinni sem býr í Tjarnabyggð rétt fyrir utan Selfoss. Dóttir hans keppir á mótinu í unglingaflokki. Henni gekk vel og komst áfram í milliriðla og keppir því aftur á fimmtudagsmorgun.

„A- og  B-flokkurinn og líka töltið,“ segir hann spurður hverju hann vilji ekki missa af á landsmóti. Hann ætlar ekki að láta þessa flokka fram hjá sér fara en þegar hann er á vakt nær hann að fylgjast aðeins með því frá vagninum sést vel á báða vellina.

Gott mót ef veðrið verður gott

Það var nóg að gera í kaffisölunni þegar blaðamaður leit inn. Rúnar Freyr Rúnarsson var einn af mörgum sem fengu sér kaffi. „Mér list vel á mótið, á meðan veðrið er gott verður þetta flott,“ segir Rúnar. Hann bendir þó á að meira hefði mátt vera tilbúið á svæðinu rétt áður en mótið hófst en allt sé þó smollið saman í dag. „Það eru mjög góð hross á mótinu, bæði kynbótahross, í A- og B-flokki og svo eru krakkarnir líka vel ríðandi,“ segir hann spurður út í hestakostinn á mótinu. Hann bendir á að niðurskurðurinn fyrir mótið hafi verið sterkur og nefnir fjöldatakmarkanir kynbótahrossa í því samhengi. Rúnar fylgist vel með hestakostinum en hann aðstoðar líka þrjá unga keppendur á mótinu.

Nóg að gera í kaffisölunni. Rúnar Freyr Rúnarsson hellir mjólk …
Nóg að gera í kaffisölunni. Rúnar Freyr Rúnarsson hellir mjólk í kaffið og félagi hans fær sér kleinu á meðan. mbl.is/Þórunn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert