„Mikil tilfinning” að fá 10 fyrir skeið

Fríða Rós Jóhannsdóttir heldur í hryssuna sína Fröken frá Bessastöðum …
Fríða Rós Jóhannsdóttir heldur í hryssuna sína Fröken frá Bessastöðum sem fékk 10 fyrir skeið í kynbótadómi undir stjórn föður hennar Jóhanns Magnússonar. mbl.is/Þórunn

„Þetta er mikil tilfinning að takast að gera eitthvað sem telst vera nálægt fullkomnun,“ segir Jóhann Magnússon sem gerði sér lítið fyrir og reið hryssunni Fröken frá Bessastöðum í 10 fyrir skeið en hryssan er 5 vetra. Í dag voru gefnar tvær 10 fyrir skeið á kynbótabrautinni en hina hlaut stóðhesturinn Eðall frá Torfunesi.Knapi á honum var Teitur Árnason. 

Dóttir Jóhanns, Fríða Rós Jóhannsdóttir, 13 ára á hryssuna. „Ég sagði við dóttur mína sem er dugleg að líta með folaldshryssunum á vorin að ef það kæmi hryssa undan Millu mætti hún eiga hana,” segir Jóhann. Dóttir hans brosir og er alsæl með hryssuna sem hún segir vera einstaklega skemmtilega. 

„Ég ákvað það í fyrra þegar hún fékk 9 fyrir skeið,“ segir Fríða Rós keik spurð hvort hana hefði grunað að hryssan hennar myndi fá 10 fyrir skeið. Fröken mun keppa í skeiði á næstu tveimur Landsmótum ef Fríða Rós fær einhverju ráðið því hún vill að pabbi sinn keppi á henni í skeiði. Eftir það má hún fara í folaldseignir, segir þessi unga ákveðna dama. 

Fröken sýndi strax sem folald mikla vekurð. „Þetta skeið sáum við i trippinu strax. Hún var sérstök að því leyti hversu mikill hraði var alltaf á henni. Þegar hún var t.d. viðskila við hópinn þá hljóp hún þau uppi og það var alltaf á skeiði. Þeir sprettir voru engu minni en þeir sem voru riðnir í dag,“ segir hann.

Jóhann segir hryssuna alltaf tilbúna að skeiða.  „Það gildir að ef hlaupagleðin er fyrir hendi í hrossinu að trufla það sem minnst heldur leyfa því að hlaupa sem allra frjálsast.”

Fröken er undan Kunningja frá Varmalæk og Millu frá Árgerði sem kemur úr ræktun Magna Kjartanssonar frá Árgerði sem flestir hestamenn þekkja. „Langræktun á miklu gangrými og miklum vilja,“ segir Jóhann um Millu móður Frökenar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert