Romero hetja Argentínu eftir vítakeppni

Argentínumenn búa sig undir vítaspyrnukeppnina í kvöld.
Argentínumenn búa sig undir vítaspyrnukeppnina í kvöld. AFP

Argentína spilar til úrslita við Þjóðverja á heimsmeistaramótinu í Brasilíu, en vítaspyrnukeppni þurfti til að knýja fram úrslit í undanúrslitaleiknum við Holland í kvöld.

Markalaust var eftir venjulegan leiktíma og framlengingu, en bæði lið fóru sér hægt og vildu ekki gera nein mistök. Það var því skrifað í skýin að vítaspyrnukeppni þurfti til þess að útkljá viðureignina.

Það var frægt í átta liða úrslitunum þegar Tim Krul kom í mark Hollendinga gegn Kostaríka, en Jasper Cillessen fékk tækifærið í þessari keppni en hann náði ekki að verja spyrnu.

Kollegi hans Sergio Romero í marki Argentínu varði hins vegar tvær spyrnur, frá Ron Vlaar og Wesley Sneijder, á meðan Argentína skoraði úr öllum sínum og spilar til úrslita við Þýskaland á sunnudag.

Bronsleikurinn verður svo viðureign Brasilíu og Hollands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert