Ekki auðvelt fyrir Dani

„Við áttum ekki von á því að vinna riðilinn. En stemningin er góð og við höfum leikið ágætlega,“ sagði Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Þýskalands, þegar mbl.is hitti hann að máli í morgun. Þýska landsliðið vann fjóra leiki í D-riðli heimsmeistaramótsins og gerði eitt jafntefli. Þjóðverjar mæta Egyptum í 16-liða úrslitum annað kvöld.

„Nú tekur við ný keppni með útsláttarfyrirkomulagi og ekki á vísan að róa,“ sagði Dagur. „Ég held að reynsluleysi eigi ekki eftir að koma okkur í koll. Miklu frekar að við mætum liði sem leikur öðruvísi handknattleik en við erum vanir,“ segir Dagur ennfremur.

„Ég er feginn að mæta ekki íslenska landsliðinu. Það hefði kostað meira stúss auk þess sem Íslendingar eru góðir í handbolta, ekki síst í leikjum þar sem leikið er upp á allt eða ekkert. Ég held að viðureign Dana og Íslendinga á morgun verði ekki auðveld fyrir Dani þótt þeir séu sterkari á pappírunum. Maður veit aldrei hvorum megin Íslendingar fara fram úr rúminu á morgnana. Ef þeir hitta á góðan leik geta þeir verið illviðráðanlegir,“ sagði Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Þýskalands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert