Danir eru ekki ósigrandi

„Þegar út í leikinn verður komið skiptir engu máli hver þjálfar danska landsliðið,“ segir Arnór Atlason, landsliðsmaður í handknattleik, spurður hvort það setji svip á viðureign Íslendinga og Dana í kvöld á heimsmeistaramótinu í handknattleik að Guðmundur Þ. Guðmundsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari Íslands, er nú við stjórnvölinn hjá danska landsliðinu.

„Guðmundur þekkir okkur alla mjög vel eftir að hafa byggt upp okkar lið, en á móti kemur að við þekkjum einnig vel til hans. Guðmundur kemur vel undirbúinn til leiks en við verðum líka klárir í baráttuna,“ segir Arnór en sigurliðið í leiknum í kvöld heldur áfram keppni í átta liða úrslitum en tapliðið fer að pakka niður föggum sínum.

„Við höfum á síðustu árum spilað skemmtilega leiki við Dani. Þeir hafa klárlega á að skipa einu besta landsliði heims enda hafa þeir leikið til úrslita á síðustu fjórum stórmótum. Það segir ýmislegt um getu danska landsliðsins,“ segir Arnór.

„Danir eru hins vegar ekki ósigrandi. Við erum líka með fínt lið og ætlum að leggja allt í sölurnar í leiknum,“ segir Arnór Atlason, landsliðsmaður í handknattleik.

Nánar er rætt við Arnór á meðfylgjandi myndskeiði.

Viðureign Íslands og Danmerkur hefst klukkan 18 í Luseil-íþróttahöllinni í Doha. Fylgst verður með leiknum í beinni textalýsingu á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert