„Einn okkar besti leikur“

Hans Óttar Lindberg fagnar marki gegn Íslendingum í kvöld.
Hans Óttar Lindberg fagnar marki gegn Íslendingum í kvöld. EPA

Hans Óttar Lindberg, „Íslendingurinn“ í liði Dana, brosti breitt eftir sigur Dana gegn Íslendingum í 16-liða úrslitunum á HM í handknattleik í kvöld.

„Þetta er einn af bestu leikjum sem við höfum spilað. Við réðum ferðinni frá byrjun leiks og markvarslan hjá Landin hafði mikið að segja um að við náðum góðu forskoti strax í upphafi. Við spiluðum virkilega góða vörn og Íslendingar áttu í erfiðleikum með að skjóta á markið - ef þeim tókst það þá varði Landin skotin,“ sagði Hans Óttar eftir sigur Dana.

Dana bíður nú leikur gegn heimsmeisturum Spánverja í átta liða úrslitunum á miðvikudag en Danir steinlágu fyrir Spánverjum, 35:19, í úrslitaleik á HM á Spáni fyrir tveimur árum.

„Ég ætla rétt að vona að við spilum betur á móti þeim en síðast,“ sagði hornamaðurinn snjalli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert