„Líklega besti leikur undir minni stjórn“

Guðmundur á fréttamannafundi eftir leikinn gegn Íslendingum.
Guðmundur á fréttamannafundi eftir leikinn gegn Íslendingum. EPA

Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari Dana, telur að lið sitt hafi líklega hafi leikið sinn besta leik undir hans stjórn þegar það sló Íslendinga út í 16 liða úrslitunum á HM í Katar í kvöld.

„Þetta var mjög góður leikur og það getur vel verið þetta hafi verið besti leikur liðsins undir minni stjórn. Ef ég að á taka eitthvað neittkvætt þá var það það að við fórum illa með of mörg færi.

Leikmenn stóðu sig virkilega vel og ég var sérlega ánægður með fyrri hálfleikinn. Við stóðum vaktina vel í vörninni og skoruðum mörg góð mörk í sókninni,“ sagði Guðmundur við danska fjölmiðla eftir leikinn í kvöld.

Hann viðurkenndi að hafa reynt af ásettu ráði að gera sem minnst úr því í viðtölum fyrir leikinn að hann væri að fara að mæta sinni eigin þjóð í leiknum og fyrrverandi lærisveinum.

„Ég hef mínar tilfinningar. Ég vildi einbeita mér að leiknum. Hluti af því var að tala ekki um hann við dönsku og íslensku fjölmiðlana. Ég vildi halda fókusnum á verkefninu sem væri mínu liði svo mikilvægt. Þess vegna tók ég ekki þátt í þessari umræðu - það var mikilvægt fyrir mig," sagði Guðmundur.

Lærisveinar Guðmundar etja kappi við heimsmeistara Spánverja í átta liða úrslitunum á miðvikudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert