Við erum með breiðari hóp

Guðmundur Þ. Guðmundsson fylgist með gangi mála í leiknum í …
Guðmundur Þ. Guðmundsson fylgist með gangi mála í leiknum í kvöld. mbl.is/Golli

Guðmundur Þ. Guðmundsson, landsliðsþjálfari Dana í handknattleik, sagði eftir sigurinn á Íslendingum í kvöld, 30:25, í sextán liða úrslitum HM í Katar, að sigur Dana hefði alls ekki verið auðveldur þó að þeir hefðu haft gott forskot frá byrjun.

„Við byrjuðum mjög vel, spiluðum mjög þéttan varnarleik og höfðum skipulagt okkur mjög vel gegn frábæru og vel spilandi íslensku liði,“ sagði Guðmundur við RÚV strax eftir leikinn.

„Þetta var ekkert auðvelt en við fengum ákveðið forskot í byrjun og það var erfitt fyrir íslenska liðið eftir það. Við erum með breiðari hóp en Íslendingar og það munaði um það,“ sagði Guðmundur.

Danir mæta heimsmeisturum Spánverja í átta liða úrslitunum. Guðmundur sagði að Danir hefðu sett sér ákveðin markmið fyrir mótið og nú lægi einfaldlega fyrir að vinna næsta leik. „Það verður ekki auðvelt gegn firnasterku spænsku liði en það er alltaf möguleiki að komast í undanúrslitin ef við spilum vel. En ég þakka Íslendingum fyrir frábæra og drengilega baráttu í kvöld,“ sagði Guðmundur Þ. Guðmundsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert