Tékkar fengu Forsetabikarinn eftir vító

Filip Jícha lyftir forsetabikarnum og fagnar með félögum sínum.
Filip Jícha lyftir forsetabikarnum og fagnar með félögum sínum. EPA

Tékkland, sem vann risasigur á Íslandi í C-riðlinum á HM í handbolta í Katar, vann í kvöld sigur á Hvíta-Rússlandi í leik um 17. sætið eftir vítakeppni.

Staðan í hálfleik var 14:13 Tékkum í vil en leikurinn var hnífjafn og spennandi og staðan 28:28 þegar seinni hálfleiknum lauk. Þá var farið beint í vítakeppni þar sem Hvít-Rússar komust yfir, 3:2, en klúðruðu tveimur síðustu vítaköstum sínum.

Filip Jícha, Tomás Babak og Jakub Hrstka skoruðu 6 mörk hver fyrir Tékka, en Siarhei Rutenka var markahæstur Hvít-Rússa eins og jafnan áður með 12 mörk.

Með því að ná 17. sæti unnu Tékkar hinn svokallaða Forsetabikar sem liðin sem ekki komast í 16-liða úrslitin keppast um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert