Sárir og leiðir

Guðmundur Þórður Guðmundsson þjálfari danska landsliðsins.
Guðmundur Þórður Guðmundsson þjálfari danska landsliðsins. EPA

„Við erum sárir og leiðir eftir leikinn," sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari Dana í handknattleik karla, eftir að lið hans tapaði naumlega, 25:24, fyrir Spánverjum í 8-liða úrslitum heimsmeistaramótsins í handknattleik í Luseil í Katar í kvöld. Joan Canellas skoraði sigurmark Spánverja þegar tvær sekúndur voru til leiksloka.

Spánverjar fara þar með í undanúrslit og mæta Frökkum en Danir leika við Slóvena um réttinn til að leika um fimmta sætið.

„Þetta var mjög erfiður og jafn leikur og stundum er lífið erfitt," sagði Guðmundur Þórður ennfremur en hann var afar niðurdreginn á blaðamannafundi sem lauk fyrir fáeinum mínútum.

Guðmundur Þórður hrósaði leikmönnum sínum. Hann sagði þá hafa lagt sig fram og barist til síðustu sekúndu.

„Nú verðum við að setjast yfir leikinn og skoða hvað fór úrskeiðis og hefja um leið undirbúning fyrir næsta leik sem fram fer á föstudaginn," sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari Dana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert