Frakkar mæta Katar í úrslitaleiknum

Valentin Porte og Nikola Karabatic fagna eftir að ljóst varð …
Valentin Porte og Nikola Karabatic fagna eftir að ljóst varð að sigurinn yrði Frakka. AFP

Frakkland vann í kvöld sigur á Spáni, 26:22, í undanúrslitum HM í handbolta í Katar og mætir því Katar í úrslitaleiknum á sunnudaginn. Spánverjar leika hins vegar við Pólverja um bronsverðlaunin.

Frakkar höfðu yfirhöndina nær allan leikinn í kvöld og voru einnig fjórum mörkum yfir í hálfleik, 18:14. Spánn náði nokkrum sinnum að minnka muninn í eitt mark og staðan var 24:22 þegar enn voru fimm og hálf mínúta eftir en þá skellti Thierry Omeyer markvörður Frakka endanlega í lás. Hann varði fjögur víti í leiknum og var alls með tæplega 50% markvörslu sem er hreint með ólíkindum gegn svo sterkum andstæðingi. Gonzalo Pérez náði sér vel á strik í marki Spánverja í seinni hálfleik eftir dapran fyrri hálfleik.

Thierry Omeyer ver frá Victor Tomas í dauðafæri.
Thierry Omeyer ver frá Victor Tomas í dauðafæri. EPA

Spánn mun því ekki geta varið titilinn sem liðið vann fyrir tveimur árum en Frakkar geta fullkomnað þrennuna svokölluðu því þeir eru ríkjandi Evrópu- og ólympíumeistarar.

Michaël Guigou var markahæstur þeirra með 5 mörk en Daniel Narcisse, Valentin Porte og Cédric Sorhaindo gerðu 4 mörk hver. Hjá Spáni voru Cristian Ugalde og Joan Canellas markahæstir með 5 mörk hvor.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.:

Nikola Karabatic brýst í gegnum vörn Spánverja.
Nikola Karabatic brýst í gegnum vörn Spánverja. EPA

-------------------------------------------

60. Leik lokið. Frakkland vann fjögurra marka sigur, 26:22, og leikur til úrslita gegn Katar á sunnudaginn.

60. Staðan er 25:22, Frökkum í vil. Omeyer var að verja fjórða vítið og gera endanlega út um leikinn, eftir að Valentin Porte hafði skorað fyrir Frakka. Þetta er búið. Þvílíkur leikur hjá Omeyer!

59. Staðan er 24:22, Frökkum í vil. Spánverjar eru búnir að fá þrjú tækifæri til að minnka muninn í eitt mark en hafa ekki náð að nýta þau. Karabatic var að fiska ruðning fyrir Frakka. Ein og hálf mínúta eftir og þeir eru með boltann. Þeir eru á leið í úrslitaleikinn.

58. Staðan er 24:22, Frökkum í vil. Spánn vann boltann í vörninni en Gonzalo Pérez átti slaka sendingu fram völlinn sem Frakkar komust inn í.

55. Staðan er 24:22, Frökkum í vil. Gonzalo Pérez var að verja vel og Cristian Ugalde skoraði úr hraðaupphlaupi og minnkaði muninn í tvö mörk. Claude Onesta tók leikhlé fyrir Frakka í kjölfarið. Fimm og hálf mínúta eftir og allt getur gerst.

52. Staðan er 23:21, Frökkum í vil. Þeir hafa verið manni færri síðustu tvær mínútur en geta þakkað Thierry Omeyer að Spánverjar hafi ekki komist nær. Hann var að verja stórkostlega frá Víctor Tomás og er búinn að taka þrjú vítaköst, þó að í tvö skiptanna hafi Spánverjar reyndar náð frákastinu og skorað.

47. Staðan er 21:18, Frökkum í vil. Það er sáralítið skorað en Daniel Narcisse var að koma Frökkum þremur mörkum yfir. Spánverjar hafa beðið lengi eftir marki.

40. Staðan er 19:18, Frökkum í vil. Vörnin er komin í gang hjá Spánverjum og það hefur ekki komið að sök að Jorge Maqueda fékk brottvísun og svo Viran Morros strax í kjölfarið.

35. Staðan er 18:16, Frökkum í vil. Cristian Ugalde var að skora fyrstu mörk seinni hálfleiks með skömmu millibili og minnka muninn í tvö mörk. Frakkar hafa ekki skorað á fyrstu fimm mínútum hálfleiksins. 

31. Seinni hálfleikur er hafinn.

Guilaume Joli fagnar einu marka Frakka í kvöld.
Guilaume Joli fagnar einu marka Frakka í kvöld. AFP

30. Hálfleikur. Staðan er 18:14, Frökkum í vil. Thierry Omeyer varði sitt áttunda skot undir lok fyrri hálfleiks og Frakkar komust í hraðaupphlaup en náðu ekki að klára það áður en fyrri hálfleiknum lauk. Michaël Guigou er markahæstur Frakka með 4 mörk en Narcisse og Nikola Karabatic hafa skorað 3 mörk hvor. Hjá Spáni eru Joan Canellas og Valero Rivera með 3 mörk hvor.

27. Staðan er 17:13, Frökkum í vil. Alltaf þegar Spánverjar virðast ætla að jafna leikinn eða því sem næst, taka Frakkar við sér og auka bilið.

22. Staðan er 14:11, Frökkum í vil. Spánn náði að minnka muninn í tvö mörk eftir að Xavier Barachet fékk fyrstu brottvísun leiksins, og fékk færi til að minnka muninn í eitt mark í kjölfarið en þess í stað komust Frakkar í hraðaupphlaup, fengu víti og Julen Aguinagalde var vísað af velli í tvær mínútur.

16. Staðan er 12:7, Frökkum í vil. Varnarleikurinn hefur verið aðall Spánverja í mótinu en þeir hafa ekki náð sér á strik. Michaël Guigou hefur verið mjög góður í sókn Frakka og var að skora sitt þriðja mark.

10. Staðan er 8:6, Frökkum í vil, og Spánverjar taka leikhlé. Daniel Narcisse er búinn að vera ferskur og var að skora sitt þriðja mark. Frakkar líta aðeins betur út á þessum upphafsmínútum.

5. Staðan 3:3. Frakkar gátu komist í 4:2 en Luka Karabatic missti boltann í góðri stöðu og Joan Canellas gat skorað auðvelt mark úr hraðaupphlaupi. 

1. Leikur hafinn! Spánverjar byrja með boltann. Ýtið á F5 til að endurhlaða síðuna og sjá stöðuna.

0. Spánn sló Danmörku út í 8-liða úrslitum með sigurmarki Joan Canellas í blálokin, eftir að hafa unnið Túnis í 16-liða úrslitum.

0. Frakkland er eina þjóðin úr riðli Íslands sem komst í gegnum 16-liða úrslitin. Frakkar unnu þar Argentínu með 13 marka mun og svo Slóveníu með 9 marka mun í 8-liða úrslitum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert