Katar spilar um gullið - Guðmundur í undankeppni ÓL

Guðmundur Guðmundsson þjálfari Dana.
Guðmundur Guðmundsson þjálfari Dana. EPA

Katar er komið í úrslitaleik HM í handbolta á heimavelli, eftir sigur á Póllandi í undanúrslitum í dag, 31:29. Þetta er langbesti árangur sem Asíuþjóð hefur náð á HM.

Katar hefur komið öllum á óvart með framgöngu sinni á mótinu en liðið hafði þriggja marka forskot eftir fyrri hálfleik í dag, 16:13. Katar náði fimm marka forskoti snemma í seinni hálfleik, 19:14, en Pólverjar gáfust ekki upp og náðu nokkrum sinnum að minnka muninn í tvö mörk, en komust ekki nær.

Rafael Capote og Kamalaldin Mallash voru markahæstir hjá Katar með 6 mörk hvor en Michal Jurecki skoraði 8 fyrir Pólland. Mikill munur var á markvörslu liðanna en Danjel Saric, sem hefur átt frábært mót, stóð sig mun betur en Slawomir Szmal í marki Póllands.

Guðmundur öruggur í undankeppni ÓL

Guðmundur Guðmundsson og lærisveinar hans í danska landsliðinu í handknattleik eru öruggir um sæti í undankeppni Ólympíuleikanna í Ríó eftir að þeir unnu Slóvena, 36:33.

Með sigrinum tryggðu Danir sér leik við Króatíu um 5. sætið á HM, en bæði lið eru örugg um að komast í undankeppni Ólympíuleikanna á næsta ári. Slóvenar munu hins vegar leika við lærisveina Dags Sigurðssonar í þýska landsliðinu um síðasta lausa sætið í undankeppni ÓL, af þeim sem í boði eru á HM.

Danir höfðu yfirhöndina stærstan hluta leiksins í dag og sigurinn var ekki í hættu á lokamínútunum þó að Slóvenar væru ekki langt undan. Lasse Svan átti magnaðan leik og skoraði 13 mörk fyrir Danmörku. Dragan Gajic var markahæstur Slóvena með 12 mörk.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is:

Youssef Benali fagnar í sigri Katar í dag.
Youssef Benali fagnar í sigri Katar í dag. AFP

-------------------------------------------

60. Leikjum lokið. Katar vann 31:29 og leikur um gullið!

60. Danir leika um 5. sætið. Þeir unnu Slóvena 36:33. Leikur Katar og Póllands stendur enn yfir en Katar er tveimur mörkum yfir, 29:27, og ein mínúta og 50 sekúndur eftir.

56. Pólverjar búnir að minnka muninn í tvö mörk og eru manni fleiri gegn Katar, staðan 26:24 og fjórar og hálf mínúta eftir.

55. Danir hleypa Slóvenum ekki of nærri sér. Staðan er 33:29 og Danir í sókn. Katar er einnig í góðum málum gegn Póllandi, staðan 26:22.

50. Guðmundur tekur leikhlé eftir að Slóvenar hafa skorað fjögur mörk í röð og minnkað muninn í 29:26. Þetta er orðinn hörkuleikur. Katar heldur sínu 3-4 marka forskoti gegn Póllandi en staðan nú er 23:19.

Mikkel Hansen sænskir að vörn Slóvena.
Mikkel Hansen sænskir að vörn Slóvena. EPA

45. Guðmundur og hans menn eru í mjög góðum málum, sjö mörkum yfir, 29:22. Katar virðist vera á leið í sjálfan úrslitaleikinn en liðið er fjórum mörkum yfir gegn Póllandi, 22:18. Pólverjar nýttu ekki færi til að minnka muninn í tvö mörk. Danje Saric sá til þess í markinu.

38. Slóvenar fá aftur rautt spjald! Miha Zvizej var rekinn af velli fyrir að slá í andlit Jesper Nöddesbo þegar boltinn var hvergi nærri. Danir eru fimm mörkum yfir, 25:20. Katar er 19:16 yfir gegn Póllandi.

34. Danir eru fjórum mörkum yfir, 21:17. Matej Gaber, línutröll Slóvena, fékk beint rautt spjald fyrir að gefa Mads Christiansen olnbogaskot. Daninn hafði reyndar farið með höndina í andlit Gaber að því er virtist, en það virtust dómararnir ekki sjá. Slóvenar eru ekki sáttir. Katar er enn yfir, 18:14.

30. Hálfleikur. Danir eru yfir, 19:15. Hornamaðurinn Lasse Svan hefur farið hamförum en hann er kominn með 8 mörk og hjá Slóvenum er Dragan Gajic með 7. Katar er yfir, 16:13 á móti Póllandi í fyrri undanúrslitaleiknum. Rafael Capote hefur skorað 6 mörk fyrir Katar og Michal Jurecki er með 6 fyrir Pólverja.

Hart barist í leik Dana og Slóvena.
Hart barist í leik Dana og Slóvena. EPA

27. Guðmundur tekur leikhlé. Danir eru yfir, 17:13. Katar er yfir á móti Póllandi, 14:12.

23. Danir hafa náð góðum tökum á leiknum. Vörnin er orðin þéttari og Landin hrokkinn í gang. Staðan er, 14:9. Staðan er jöfn, 11:11, hjá Póllandi og Katar.

19. Danir búnir að skora 7 mörk í röð og eru yfir, 13:8. Lasse Svan með 6 mörk. Pólland er yfir á móti Katar, 10:8.

16. Danir eru komnir yfir, 9:8. Lasse Svan hefur farið á kostum en hann er búinn að skora 5 mörk. Pólland er 9:8 yfir á móti Katar.

13. Danir eru enn að elta. Slóvenar eru yfir, 8:6. Lasse Svan er búinn að skora þrjú af mörkum Dana. Pólland er 8:7 yfir á móti Katar.

10. Slóvenar hafa verið skrefinu á undan og eru yfir, 6:4. Landin hefur ekki náð sér á strik í danska markinu. Pólverjar eru 6:5 yfir á móti Köturum.

5. Leikurinn fer fjörlega af stað. Slóvenar eru yfir 3:2. Staðan er 2:2 hjá Pólverjum og Köturum.

1. Leikurinn er hafinn. Á sama tíma eigast við Katarar og Pólverjar í fyrri undanúrslitaleiknum. Ýtið á F5 til að uppfæra stöðuna.

Michal Jurecki lyftir sér yfir vörn Katar.
Michal Jurecki lyftir sér yfir vörn Katar. EPA

0. Danir töpuðu fyrir heimsmeisturum Spánverja í miklum spennuleik í átta liða úrslitunum í fyrrakvöld.

0. Slóvenar töpuðu fyrir Frökkum en þeir sáu aldrei til sólar í þeim leik.

0. Sigurliðið mætir Króötum í leiknum um 5. sætið á HM en tapliðið etur kappi við Þjóðverja í leik um 7. sætið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert