Meiðsli í herbúðum Þjóðverja

Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Þjóðverja, gæti þurft að treysta á eina …
Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Þjóðverja, gæti þurft að treysta á eina örvhenta skyttu í lokaleiknum á HM á morgun. EPA

Vel getur svo farið að Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Þjóðverja, hafi aðeins eina örvhenta skyttu í liði sínu á morgun þegar þýska landsliðið leikur um sjöunda sætið á heimsmeistaramótinu í handknattleik. 

Steffen Weinhold meiddist í leiknum við Katar fyrr í vikunni og gat ekki leikið með gegn Króötum í dag. Undir lok leiksins í dag meiddist Jens Schöngarth á læri en hann leysti Weinhold að mestu af í leiknum í dag.

„Það er veik von um Weinhold en við verðum að sjá til hversu slæmt þetta er með strákinn," sagði Dagur við mbl.is eftir leikinn í dag.

Ef bæði Weinhold og Schöngarth verða fjarri góðu gamni verður Dagur að treysta á Michael Müller en kappinn sá náði sér ekki á strik á þeim tíma sem hann fékk tækifæri til að láta ljós sitt skína. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert