Slóvenar eru sterkir

„Það er ákveðinn kostur að stutt er síðan við mættum Slóvenum. Þá lékum við vel en vináttuleikir eru alltaf öðruvísi en viðureignir á stórmóti,“ segir Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari Dana í handknattleik en hann teflir sveit sinni fram í dag gegn Slóvenum á heimsmeistaramótinu í Doha í Katar.

Sigurliðið í viðureign Dana og Slóvena mætir annað hvort Króatíu eða Þýskalandi í leik um fimmta sætið á HM á morgun en tapliðin eigast við í leik um sjöunda sætið en leikið er um átta eftir sætin á HM að þessu sinni vegna þess að röðin skiptir máli þegar raðað verður í riðla fyrir forkeppni Ólympíuleikana á næsta ári.

„Slóvenar hafa örugglega bætt sig síðan við mættum þeim síðast og sömu sögu er að segja af okkur,“ sagði Guðmundur Þórður. Danir og Slóvenar mættust á fjögurra liða móti í Danmörku í byrjun janúar þar sem Danir unnu stórsigur.

„Slóvenar eru með  sterka handboltamenn. Þeir hafa farið í gegnum góðan handboltaskóla í heimalandi sínu og segja má að þeir geti allt,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari Dana, þegar mbl.is hitti hann á blaðamannfundi danska handknattleikssambandsins í gær.

Nánar er rætt við Guðmund Þórð á meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert