Wilbek ekki óánægður með neitt

Ulrik Wilbek þjálfaði danska landsliðið um árabil.
Ulrik Wilbek þjálfaði danska landsliðið um árabil. mbl.is/Jakob Fannar

Ulrik Wilbek, íþróttastjóri danska handknattleikssambandsins og fyrrverandi þjálfari danska karlalandsliðsins um árabil, segir að í heildina séð sé hann ekki ósáttur við neitt hjá liðinu þó það hafi ekki náð því takmarki sínu að spila um verðlaunasæti á heimsmeistaramótinu í Katar undir stjórn nýs þjálfara, Guðmunds Þ. Guðmundssonar.

Wilbek var maðurinn á bakvið ráðningu Guðmundar í starfið en eftir tapið gegn Spánverjum í átta liða úrslitunum á miðvikudaginn liggur sú staðreynd fyrir að í fyrsta sinn síðan 2005 kemst Danmörk ekki í fjögurra liða úrslit á heimsmeistaramóti.

Wilbek sagði við BT í dag að hann hafi gætt sín á því að halda sig til hlés og vera sem minnst í sviðsljósinu í kringum danska liðið.

„Það hefur alls ekki verið erfitt, enda var það eiginlega mitt val. Ég hef reynt að blanda mér ekki í umræðurnar um liðið, þar sem mér finnst geysilega mikilvægt að hugsanir og pælingar nýja þjálfarateymisins skili sér rétta leið," sagði Wilbek og kvað of snemmt að leggja endanlegt mat á frammistöðu danska liðsins í Katar.

„Ég tel ekki rétt að segja mikið þegar enn eru eftir tveir leikir á mótinu. Það er risastór munur á því að enda í fimmta eða áttunda sætinu. Við settum okkur tvíþætt markmið fyrir mótið. Það fyrra var hvað væri ásættanlegt - sem var að vera í hópi sjö efstu liðanna og vera öruggir í forkeppni Ólympíuleikanna. Það seinna  var að reyna að vinna til  verðlauna. Því náðum við ekki en þar með skiptir nú öllu máli að ná sem bestu sæti," sagði Wilbek.

Spurður hvort hann hefði séð eitthvað hjá liðinu sem mátt hefði fara betur svaraði íþróttastjórinn og landsliðsþjálfarinn fyrrverandi. „Það sem ég sé og unnið verður með mun ég ræða við Guðmund og Peter (aðstoðarþjálfara) þegar mótið er búið. Þá hluti ræði ég ekki við aðra. En í heildina séð er ég ekki óánægður með neitt. Málið er líka að nú fær Guðmundur tækifæri til að gera  betur. Ef hann hefði unnið gullverðlaunin í fyrstu atrennu hefði hann bara getað farið niður á við eftir það," sagði Wilbek.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert