Fimmta sæti betra en sjötta

Guðmundur Þórður Guðmundsson.
Guðmundur Þórður Guðmundsson. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Fimmta sæti er mikið betra en sjötta sætið,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari Danmerkur, eftir að lið hans vann Króatíu nokkuð örugglega, 28:24, í leiknum um fimmta sætið á heimsmeistaramótinu í handknattleik síðdegis í dag.

„Við unnum að þessu sinni topplið þótti mér sannfærandi endir af okkar hálfu á þessu móti.  Mér finnst einnig afar sterkt af okkar hálfu að vinna tvo síðustu leikina á mótinu eftir að hafa tapað á grátlegan hátt fyrir Spánverjum í leiknum um sæti í undanúrslitum,“ segir Guðmundur og bendir á að þegar upp er staðið hafi danska liðið unnið sjö leiki á mótinu, gert eitt jafntefli en aðeins tapað einni viðureign með minnsta mun. Það er mjög sérstakt að uppskera ekki meira en fimmta sætið eftir að hafa aðeins tapað einum leik af níu á heimsmeistaramótinu,“ segir Guðmundur Þórður sem hallast að því að fyrirkomulag HM eins það var á árunum 1997 – 2011 þar sem leikið var í milliriðlum sem betra en sú „bikarkeppni“ sem hefur verið keppt í eftir riðlakeppnina á tveimur síðustu heimsmeistaramótum.

„Við gerðum til dæmis jafntefli við Argentínu í fyrsta leik okkar á mótinu og við vorum gagnrýndir mjög fyrir það. Þegar upp er staðið skipta þau úrslit akkúrat engu máli. Þetta bikarkeppnisfyrirkomulag gerir hinsvegar að verkum að frábær lið geta fallið snemma úr keppni og önnur náð lengra,“ segir Guðmundur og bendir á að Pólland sem danska landsliðið vann örugglega í riðlakeppninni hafi leikið um bronsverðlaun á mótinu og í raun verið nærri því að leika til úrslita.

„Ef maður gerir mótið upp í stuttu máli má segja að árangurinn mjög góður, aðeins eitt tap í níu leikjum, en sætið er neðar vonum. Þetta er afar sérstakt,“ segir Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari Dana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert