Dagur fær gull en Gummi verður fjórði

Dagur Sigurðsson varð Evrópumeistari með þýska liðinu 2016 og fékk …
Dagur Sigurðsson varð Evrópumeistari með þýska liðinu 2016 og fékk brons á Ólympíuleikunum. AFP

Dagur Sigurðsson mun hampa gullverðlaunum á heimsmeistaramóti karla í handknattleik en Guðmundur Þ. Guðmundsson verður að sætta sig við fjórða sætið. Þannig hljóðar spádómur handboltatímaritsins Handball Planet um hver lokaniðurstaðan verði á HM í Frakklandi.

Spáin hljóðar uppá að Þjóðverjar, Danir, Frakkar og Spánverjar komist í undanúrslitin en það verði lærisveinar Dags í þýska landsliðinu sem muni sigra Spánverja í úrslitaleiknum og Frakkar  vinni Guðmund og hans menn í danska landsliðinu í leiknum um bronsið.

Þjóðverjar munu vinna mótið því Dagur Sigurðsson, besti þjálfari heims 2016, mun sýna og sanna að þýska liðið getur haldið sínu striki frá síðustu stórmótum - að sögn Handball Planet.

Spánverjar eru hungraðir eftir verðlaunum, ekki síst vegna þess að þeir komust ekki á Ólympíuleikana, og hafa auk þess úthvíldari leikmenn en hin liðin, einmitt vegna þess að þeir voru ekki á ÓL í sumar.

Frakkar munu ekki komast í úrslitaleikinn þar sem þeir standast ekki pressuna sem er á þeim sem sigurstranglegasta lið mótsins og gestgjafar. Öll lið sem mæti þeim komi til leiks með því hugarfari að þau hafi engu að tapa.

Samt muni Frakkar sigra Dani í leiknum um bronsið, og danska liðið muni sérstaklega vera í vandræðum þegar kemur að stóru leikjunum ef hershöfðinginn í vörninni, René Toft Hansen, nái ekki að spila á mótinu eins og útlit sé fyrir - að sögn Handball Planet.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert