Hefur skráð hverja æfingu í 27 ár

Guðmundur Þ. Guðmundsson.
Guðmundur Þ. Guðmundsson. AFP

Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari Dana í handknattleik, hefur skráð niður hverja einustu æfingu á 27 ára ferli sínum í þjálfun. Þessu skýrði hann frá í viðtali við vef Danmarks Radio.

„Ég skrifa allt niður, hvernig ég undirbý leiki og æfingar, og allar mínar vangaveltur. Ég hef skráð niður hverja einustu æfingu og hvað ég hef gert á henni. Þetta hef ég gert í næstum 27 ár,“ segir Guðmundur í viðtalinu sem má sjá í heild sinni hér en Tina Müller frá DR heimsótti Guðmund til Íslands og ræddi við hann á skrifstofu hans.

„Þegar stórmótin nálgast eyði ég mörgum klukkutímum hér til undirbúnings, til að greina leiki og til að taka ákvarðanir varðandi liðið. Vinnuherbergið hefur allt að segja fyrir mig. Hér hef ég allt sem ég þarf, eins og nokkrar tölvur. Yfirleitt nota ég bara eina en stundum þegar margir leikir eru í gangi skoða ég tvo á sama tíma,“ segir Guðmundur en viðtalið er hluti af ítarlegri umfjöllun DR um hann.

Guðmundur verður á ferðinni í kvöld með danska landsliðið sem mætir Argentínu í fyrsta leik sínum á HM í Frakklandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert