Ánægðir í rúmið eftir dagsverkið

Ásgeir Örn sækir að vörn Angóla í kvöld.
Ásgeir Örn sækir að vörn Angóla í kvöld. Ljósmynd/IHF

„Það er gott að vera búnir að landa fyrsta sigrinum og hann léttir lundina,“ sagði Ásgeir Örn Hallgrímsson við mbl.is eftir sigurinn gegn Angóla á heimsmeistaramótinu í handknattleik í Metz í kvöld.

„Ég held að við getum bara farið ánægðir í rúmið eftir dagsverkið. Angólamennirnir spiluðu svakalega langar sóknir og það getur verið erfitt að halda einbeitingu í svona leikjum. Auðvitað misstum við einbeitingu á köflum og sérstaklega í byrjun seinni hálfleiks.

En heilt yfir þá fannst mér við gera þetta bara nokkuð vel og við kvörtum ekki eftir fjórtán marka sigur. Uppstilltur sóknarleikur hefði kannski mátt vera betri hjá okkur. Það var smá hökt hjá okkur í byrjun seinni hálfleiks en ég kenni andstæðingnum um og hvernig hann spilar,“ sagði Ásgeir.

„Nú bíður okkar leikur sem snýst um allt eða ekkert. Við verðum klárir í slaginn á móti Makedóníu og það er fínt fyrir okkur að Makedónía á leik á morgun á móti Spánverjum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert