Fékk að svitna og það var gott

Gunnar Steinn Jónsson í baráttunni gegn Angólamanni í kvöld.
Gunnar Steinn Jónsson í baráttunni gegn Angólamanni í kvöld. AFP

„Það var auðvitað gott að ná í fyrsta sigurinn og mikilvægt fyrir líðanina,“ sagði Gunnar Steinn Jónsson við mbl.is eftir sigur Íslands gegn Angóla á HM í handknattleik í Metz í kvöld.

Gunnar Steinn fékk að spila meira í kvöld heldur en í hinum þremur leikjunum og hann nýtti tækifærið vel, skoraði 3 mörk og fiskaði tvö vítaköst.

„Þetta var algjör skyldusigur en það er oft erfitt að spila gegn svona liðum. Við sýndum það að ef við slökuðum eitthvað á þá minnkuðu þeir muninn. Ég fékk nokkrar mínútur í kvöld og fékk að svitna og það var gott.

Það var gott að ná að hvíla nokkra af eldri leikmönnunum og nú notum við daginn á morgun til að hlaða batteríin og búa okkur undir mjög erfiðan leik á móti Makedóníu. Þetta er úrslitaleikur fyrir okkur. Makedóníumennirnir eru mjög góðir og við verðum að eiga toppdag til að vinna þá,“ sagði Gunnar Steinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert