Ísland endaði í 14. sæti á HM

Bjarki Már Gunnarsson og Rúnar Kárason reyna að stöðva Ludovic …
Bjarki Már Gunnarsson og Rúnar Kárason reyna að stöðva Ludovic Fabregas í leiknum við Frakka í 16-liða úrslitum á laugardag. AFP

Íslenska karlalandsliðið í handbolta endaði í 14. sæti á HM í Frakklandi. Liðið hefur tekið þátt á 19 af 25 heimsmeistaramótum og einu sinni endað neðar.

Ísland féll úr leik í 16-liða úrslitum þegar liðið tapaði fyrir heimsmeisturum Frakka. Þá hafði liðið unnið einn leik og gert tvö jafntefli í riðlakeppninni.

Þegar liðunum átta sem falla út í 16-liða úrslitum er raðað í sæti 9-16, er farið eftir árangri þeirra úr riðlakeppninni. Aðeins er þó horft til árangurs gegn liðum sem enduðu í 1.-4. sæti hvers riðils.

Lærisveinar Dags Sigurðssonar í Þýskalandi höfnuðu í 9. sæti og lærisveinar Guðmundar Guðmundssonar í Danmörku í 10. sæti.

Röðun liða í sætum 9-16:
9. Þýskaland
10. Danmörk
11. Hvíta-Rússland
12. Rússland
13. Egyptaland
14. ÍSLAND
15. Makedónía
16. Brasilía

Frá og með HM á Íslandi árið 1995 hafa 24 þjóðir verið með á lokamóti HM. Ísland hefur aðeins misst af tveimur mótum síðan þá, og aldrei mistekist að komast í 16-liða úrslitin á þeim mótum sem liðið hefur komist á. Versti árangurinn var á HM í Túnis 2005 þegar Ísland hafnaði í 15. sæti, en liðið varð í 14. sæti á heimavelli 1995, rétt eins og í Frakklandi nú.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert