Pólland vann Forsetabikarinn

Talant Dujshebaev og lærisveinar hans komust óvænt ekki í 16-liða …
Talant Dujshebaev og lærisveinar hans komust óvænt ekki í 16-liða úrslit en náðu 17. sætinu á HM. AFP

Pólverjar skoruðu sjö síðustu mörk leiksins og unnu Argentínu, 24:22, í úrslitaleik Forsetabikarsins á HM karla í handbolta í Frakklandi í kvöld.

Forsetabikarinn er keppni þeirra átta liða sem ekki komast í 16-liða úrslit mótsins, en leikið er um hvert sæti frá 17.-24. sæti. Þar sköruðu Pólverjar fram úr en þeir máttu heldur betur hafa fyrir sigrinum í kvöld.

Staðan var 13:13 í hálfleik en Argentína komst í 22:17 þegar tæpar 13 mínútur lifðu leiks. Þá kom hinn 22 ára gamli Mateusz Kornecki í markið hjá Póllandi og bókstaflega lokaði markinu. Hann varði öll skot Argentínu það sem eftir lifði leiks, á meðan samherjum hans tókst smám saman að ná forystunni með sjö síðustu mörkum leiksins.

Pólland hafnaði því í 17. sæti mótsins og Argentína í 18. sæti. Túnis vann Sádi-Arabíu, 39:30, í leiknum um 19. sæti. Síle vann Japan, 35:29, í leik um 21. sæti, og Barein vann Angóla, 32:26, í leiknum um 23. sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert