„Vorum að sjá Guðmund í síðasta sinn“

Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari Dana þegar niðurstaðan lá fyrir í Albertville.
Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari Dana þegar niðurstaðan lá fyrir í Albertville. AFP

„Það þjónar engum tilgangi að láta Guðmund Guðmundsson standa á hliðarlínunni hjá danska landsliðinu eftir vonbrigðin á HM.“

Þetta segir Camilla Andersen, fyrrum landsliðskona Dana í handknattleik, sem vill losna við Guðmund úr starfi landsliðsþjálfara strax eftir að ólympíumeistararnir féllu úr leik í 16-liða úrslitum heimsmeistaramótsins í gær. Hún var sérfræðingur danska ríkismiðilsins DR á HM í Frakklandi.

Guðmundur hafði þegar gefið það út að hann ætlaði ekki að endurnýja samning sinn við danska handknattleikssambandið, en hann rennur út í sumar. Guðmundur á því eftir að stýra Dönum í leikjum í undankeppni Evrópumótsins í vor og sjálfur segist hann ætla að sitja út samninginn.

„Ég trúi því að við höfum verið að sjá Guðmund í síðasta sinn. Það er algjört fíaskó að ná ekki að slá út miðlungslið Ungverja og komast í átta liða úrslit,“ sagði Andersen, sem vill sjá Nikolaj Jacobsen strax í stöðu landsliðsþjálfara, en hann á að taka við í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert