Stórstjarnan Mikkel Hansen leikur tímamótaleik í Barcleys Arena í Hamborg í dag þegar ólympíumeistarar Dana etja kappi við heimsmeistara Frakka í undanúrslitum heimsmeistaramótsins í handknattleik.
Hansen leikur í dag sinn 200. landsleik en hann hefur verið lykilmaður danska landsliðsins undanfarin ár og hefur verið talinn einn besti handboltamaður heims.
„Ég er mjög stoltur að hafa spilað svona marga landsleiki,“ segir Hansen í viðtali við TV2 en hann lék sinn fyrsta landsleik í júní 2007. Hann var þá 19 ára gamall og skoraði 7 mörk í leik á móti Svíum.
Hansen er markahæsti leikmaðurinn á HM, hefur skorað 53 mörk, tveimur mörkum meira en Spánverjinn Ferrán Solé.