„Eigum enn ágætis séns“

Það er alltaf hressilega tekist á þegar SA og Björninn …
Það er alltaf hressilega tekist á þegar SA og Björninn mætast á svellinu. mbl.is/Golli

Ingþór Árnason spilaði lengi með SA á Akureyri en er nú á sínu fyrsta ári með Birninum. Hans menn lutu í lægra haldi fyrir SA í kvöld í gríðarmikilvægum leik í Hertz-deildinni í íshokkí. Leikurinn fór 4:1. Sigur SA kom þeim þremur stigum fram úr Birninum en aðeins tvær umferðir eru eftir af deildarkeppninni. Liðin eru að keppast við að komast í úrslitaeinvígið gegn deildarmeisturum Esjunnar.

Ingþór hafði þetta að segja um leikinn og framhaldið:

„Við vorum töluvert betri en þeir í þessum leik. Það vantaði bara að skora. Eftir að þeir komust í 3:0 þá lágum við bara í sókn. Við vorum hreinlega óheppnir að setja ekki fleiri mörk á þá. Það hefur loðað aðeins við okkur að byrja leikina ekki nógu vel. Hins vegar höfum við verið góðir í annarri og sérstaklega þriðju lotu. Í þessum leik var bara pökkurinn ekki að skoppa með okkur. Við erum samt enn þá inni í þessu. Það er allt hægt. Ef við vinnum síðustu tvo leikina getum við vel farið í úrslitin. Markatala okkar er miklu betri en hjá SA þannig að ef liðin verða jöfn að stigum erum við fyrir ofan þá. Það er náttúrulega agalegt að hafa tapað hér tveimur leikjum í röð gegn þeim. En við eigum enn ágætis séns með því að vinna okkar leiki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert