„Ég er miklu tapsárari en mamma“

Guðrún Kristín Blöndal, til vinstri, sem leikur með Ásynjum og …
Guðrún Kristín Blöndal, til vinstri, sem leikur með Ásynjum og dóttir hennar, Saga Margrét Sigurðardóttir Blöndal, sem leikur með Ynjum. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Nokkuð merkileg rimma var í gangi í úrslitakeppninni í íshokkí kvenna þar sem Ynjur lögðu Ásynjur í hreinum úrslitaleik í kvöld. Mæðgurnar Saga Sigurðardóttir og Guðrún Kristín Blöndal áttust þá við og hafði hin bráðunga Saga vinninginn. Eiginmaður Guðrúnar og faðir Sögu, Sigurður Sigurðsson, hafði á orði að það væri skárra þar sem varla yrði líft á heimilinu ef Saga myndi tapa. Var stelpan innt eftir þessu.

„Það er alveg rétt hjá honum. Ég er miklu tapsárari en mamma. Hún er öllu vön og getur haft stjórn á sér. Það verður bara gleði á heimilinu í kvöld og næstu daga. Ég vona það alla vega.“

Nú er pabbi þinn búinn að vinna 20 titla í meistaraflokki og mamma þín álíka marga. Þú ert komin með tvo. Ætlarðu að ná þeim?

„Það er stefnan. Þetta er bara byrjunin,“ sagði Saga en hún er fædd árið 2003 og á vonandi mörg ár eftir í hokkíinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert