Gauti þjálfar í Kanada – „Þetta er harður heimur“

Gauti Þormóðsson, þjálfari Esju.
Gauti Þormóðsson, þjálfari Esju. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta verður eitthvað. Vonandi verður maður ekki rekinn bara fyrstu mánuðina,“ sagði Gauti Þormóðsson léttur í bragði í samtali við mbl.is. Gauti er annar þjálfara deildarmeistara Esju í íshokkí, en hefur verið ráðinn þjálfari hjá liði í Kanada og tekur við eftir að úrslitakeppninni hér heima lýkur.

Fyrirkomulagið úti er öðruvísi en þekkist í Evrópu, á þá leið að það eru ekki stór félög með unglingalið sem reyna að ala upp leikmenn fyrir meistaraflokka. Hvert lið má segja að sé sjálfstætt, og það sem Gauti tekur við heitir Kingsville Kings og er aðeins skipað leikmönnum 21 árs og yngri.

„Hvert lið er í eigu einhverra aðila og þetta er eina liðið í litlum bæ, sem er bara U21 árs lið. Strákarnir eru fengnir víða að og búa hjá fjölskyldum á svæðinu. Þetta er áhugamannalið sem spilar í GMHL-deildinni, sem er miðlungssterk deild í Kanada en töluvert sterkari en unglingahokkiíð hér,“ útskýrir Gauti. En hvernig kom þetta upp?

Sömu eigendur eiga atvinnumannalið

„Það var umboðsmaður sem ég hef verið í sambandi við til þess að fá leikmenn hingað heim sem var milliliður í þessu. Svo eiga sömu eigendurnir fleiri lið, atvinnumannalið, svo þetta er gott tækifæri,“ sagði Gauti, en hann hefur þegar skrifað undir og flyst svo út í ágúst. Um er að ræða eins árs samning.

Þjálfarinn Gauti Þormóðsson stjórnar Esjumönnum.
Þjálfarinn Gauti Þormóðsson stjórnar Esjumönnum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Gauti er fyrsti Íslendingurinn sem alfarið er alinn upp í hokkíinu hér á landi sem er fenginn út sem þjálfari eftir því sem næst verður komist. Mundi hann segja að þetta sé ákveðin yfirlýsing um að íshokkíið hér heima sé í sókn?

„Allavega er deildin hér heima klárlega orðin sterkari. En ég veit ekki hvort sé hægt að skrifa þetta á það, eða bara heppni. En þeir hafa verið að fylgjast með deildinni hérna heima og tölfræðin hjá Esju er mjög góð. Þetta er bara spennandi tækifæri og það verður gaman að sjá hvort það verði eitthvað úr þessu,“ sagði Gauti.

Kannski lán í óláni að meiðast

Hann hefur sjálfur ekkert spilað síðustu ár, en hann þurfti að hætta vegna bakmeiðsla sem hann er enn að kljást við. „Annars væri maður enn spriklandi þarna. En kannski var þetta bara lán í óláni, að fara að þjálfa í staðinn.“

Gauti Þormóðsson í leik með SR á sínum tíma.
Gauti Þormóðsson í leik með SR á sínum tíma. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Liðið sem Gauti tekur við, Kingsville Kings, er staðsett í austurhluta Kanada, alveg við landamærin nálægt borginni Detroit í Bandaríkjunum. Sem fyrr segir er þetta áhugamannalið, en ef menn standa sig er stutt í meiri alvöru.

„Nokkrum kílómetrum frá er atvinnumannalið í eigu sömu aðila, svo ef þú stendur þig geturðu verið kallaður upp eins og gert er í Ameríku. Það spilar í FHL-deildinni sem er svona fyrsta stigið í atvinnumennsku og þar fá menn smá pening. Ef þú stendur þig þar geturðu svo verið kallaður enn ofar,“ útskýrir Gauti.

Ætlar að lokka íslenska stráka út

En hvað með íslenska leikmenn, sér Gauti fyrir sér að hann geti reynt að lokka einhverja til sín héðan?

„Ég sé alveg allavega 3-4 stráka sem gætu spilað þarna sem eru gjaldgengir í U21 árs lið. Ég held að þetta sé flott tækifæri fyrir þá, að spila betra hokkí,“ sagði Gauti og nefndi að nokkrir strákar sem eru að spila með U18 ára landsliðinu á HM í Serbíu núna séu mjög efnilegir.

„Það væri líka þægilegt fyrir strákana að fara út þar sem þjálfarinn veit hverjir þeir eru, það er oft sem strákar hafa farið í erlend lið en fá aldrei tækifæri. Svo maður myndi allavega sjá til þess að þeir fengju sénsinn,“ sagði Gauti, og reiknaði með að athuga frekar púlsinn á þeim strákum eftir að tímabilinu hér lýkur.

Esja fékk deildarmeistaratitilinn afhentan á dögunum.
Esja fékk deildarmeistaratitilinn afhentan á dögunum. Ljósmynd/Sigurður Björnsson

Ætlar sér að kveðja með Íslandsmeistaratitli

Þar sem þetta er U21 árs lið er mikil leikmannavelta, og af 25 manna liði geta 15 verið nýliðar. Gauti segir að venjulega sé tekinn stöðufundur í nóvember og horft raunhæft á það hvernig hópurinn er.

„Þetta er harður heimur þarna úti, ég var bara ráðinn í staðinn fyrir einhvern sem var rekinn því liðið var ekki að vinna leiki. Ef hópurinn er talinn góður á maður að vinna, og ef ekki þá er strákunum bara skipt út og aðrir sóttir. Það er engin miskunn þarna. En á móti kemur að ef þú slærð í gegn þá geturðu fengið stærra tækifæri,“ segir Gauti.

En áður en hann tekur við Kingsville Kings mun hann freista þess að stýra Esju til Íslandsmeistaratitils í fyrsta sinn í þriggja ára sögu félagsins. Úrslitakeppnin við SA hefst á þriðjudag og vinna þarf þrjá leiki til þess að standa uppi sem sigurvegari. Gauti vill að sjálfsögðu kveðja með stóra titlinum.

„Já, það er eina markmiðið. Við ætlum okkur að vinna þennan titil, en við munum samt horfa til baka hvernig sem fer og finnast þetta vera gott tímabil. Við erum besta liðið á landinu í ár, en auðvitað man enginn eftir því ef þú vinnur ekki bikarinn,“ sagði Gauti Þormóðsson, þjálfari Esju og tilvonandi þjálfari Kingsville Kings, við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert