„Við snúumst bara í hringi“

Jóhann Már Leifsson andartaki áður en hann skaut að marki …
Jóhann Már Leifsson andartaki áður en hann skaut að marki Esju á lokasekúndum leiksins í kvöld. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Jóhann Már Leifsson skoraði mark og lagði upp annað í kvöld þegar SA-Víkingar og Esja mættust í úrslitakeppni karla í íshokkí. Ekki dugði það Akureyringum þar sem Esja vann leikinn 3:2. Staðan er því 2:0 fyrir Esju í einvígi liðanna og á laugardag geta Esjumenn klárað það með þriðja sigrinum.

Jóhann Már er þó ekki af baki dottinn. „Þetta er níunda tapið okkar gegn Esju í vetur og flestir leikirnir hafa verið jafnir og skemmtilegir. Þessi leikur hefði getað endað með sigri okkar en því miður þá unnu þeir. Það er ekki nógu gott en þetta er ekki búið. Þeir voru að spila vel og voru kannski aðeins heppnari en við. Þeir refsuðu tvívegis í yfirtölu og þá eru þeir hvað hættulegastir,“ sagði Jóhann Már við mbl.is.

„Þeir ná að færa pökkinn mjög vel og við snúumst bara í hringi og vitum ekkert hvar hann er. Tvö mörk hjá þeim komu þegar þeir voru í yfirtölu, áttu skot sem var varið og við ekki klárir á pökknum. Mér finnst við þurfa að vera miklu betri í að taka þessi fráköst og taka alla vega kylfur í burtu finnst mér.“

Þið eruð þó ekki dauðir úr öllum æðum ef maður þekkir ykkur rétt.

„Nei, alls ekki. Við sjáum bara hvað gerist á laugardaginn. Við höfum verið í þessari stöðu áður og náð að snúa henni við.“

Ykkur vantar tvo menn sem hafa spilað með í allan vetur. Er það ekki óheppilegt á þessum tíma?

„Hafþór Andri er meiddur og er ekkert að fara að spila. Svo er Elvar Jósteinsson í sólinni á Flórída núna. Þetta er fúlt en svona getur gerst. Við erum með fínan hóp og eigum enn þá möguleika,“ sagði Jóhann Már að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert