„Hefði ekki getað verið betra“

Íslensku landsliðsstrákarnir standa saman undir þjóðsöngnum í leikslok.
Íslensku landsliðsstrákarnir standa saman undir þjóðsöngnum í leikslok. Ljósmynd/Sorin Pana

„Mér líður bara frábærlega,“ sagði Kristján Albert Kristinsson, landsliðsmaður í íshokkí, í samtali við mbl.is eftir 2:0-sigur Íslands gegn Rúmeníu á HM sem fram fer þar í landi.

Kristján skoraði fyrra mark Íslands í leiknum, en hann er í sínu fyrsta verkefni með A-landsliðinu. Um var að ræða fyrsta sigur Íslands á Rúmeníu í sögunni og Kristján valdi því heldur betur augnablikið að skora sitt fyrsta landsliðsmark fyrir A-landsliðið.

„Þetta er alveg ótrúlegt og hefði eiginlega ekki getað verið betra. Ég fór á eitt hné held ég og svo komu strákarnir og fögnuðu með mér,“ sagði Kristján aðspurður hvort hann myndi yfir höfuð eftir augnablikinu eða hvort allt hefði gerst svo hratt.

„Þetta breytir miklu og núna eigum við góðan séns á að ná í verðlaunasæti. Og við hefðum aldrei getað gert þetta án Dennis í markinu,“ sagði Kristján um leið og markvörðurinn geðþekki gekk fram hjá og þakkaði kærlega fyrir hrósið í sinn garð.

Kristján Albert Kristinsson (13) er hér að skora fyrsta landsliðsmark …
Kristján Albert Kristinsson (13) er hér að skora fyrsta landsliðsmark sitt fyrir Ísland. Ljósmynd/Sorin Pana
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert