Hreinn úrslitaleikur í kvöld

Ástralía fagnar marki gegn Belgíu í dag.
Ástralía fagnar marki gegn Belgíu í dag. Ljósmynd/Sorin Pana

Það er ljóst að um hreinan úrslitaleik verður að ræða í kvöld í lokaleik A-riðils 2. deildar HM í íshokkí sem fram fer í Galati í Rúmeníu. Úrslitin á toppi og botni munu þá ráðast í viðureign Rúmeníu og Spánar.

Í fyrsta leik síðustu umferðarinnar sem lauk nú fyrir skömmu unnu Ástralir 3:0-sigur á Belgíu, og skutust um leið á toppinn. Ástralir eru með 11 stig, tveimur meira en Rúmenía, og þurfa heimamenn því sigur í kvöld til þess að tryggja sér efsta sætið.

Að sama skapi er allt undir fyrir Spánverja, sem eru á botninum með 2 stig. Eina von þeirra nú er að Ísland vinni Serbíu og þurfa þeir þá að vinna Rúmeníu til þess að senda Serba í neðsta sætið. Það tryggir um leið Ástralíu sigurinn í riðlinum og sæti í B-riðli 1. deildar að ári.

Tapið þýðir jafnframt að Belgía endar með 6 stig og situr í þriðja sætinu með jafn mörg stig og Ísland fyrir leik okkar manna gegn Serbíu. Sigur tryggir Íslandi bronsverðlaun, en vinni Serbar fá þeir bronsið og Ísland hafnar í 5. sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert